Aðaleigendur Samherja, fyrrverandi hjónin Þorsteinn Már Baldvinsson og Helga S. Guðmundsdóttir, og Kristján Vilhelmsson hafa ákveðið að framselja hlutabréfaeign sína til barna sinna. Fyrir þá breytingu áttu þau þrjú samanlagt 86,5 prósent hlut í Samherja, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, en eftir hana munu þau eiga tvö prósent.
Samherjasamstæðan, sem samanstendur að Samherja hf. og Samherja Holding, átti eigið fé upp á 111 milljarða króna í lok árs 2018 og það hefur án efa aukist í fyrra, sem var gjöfult ár í íslenskum sjávarútvegi. Breytingarnar varða einungis hlutabréf í Samherja hf.
Frá þessu er greint á heimasíðu Samherja. Þar segir að stærstu hluthafar verði nú Baldvin og Katla Þorsteinsbörn, sem munu fara samanlagt með um 43,0 prósent hlut í Samherja og Dagný Linda , Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín Kristjánsbörn, sem munu fara samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár. „Undirbúningur þessara breytinga á eignarhaldi hefur staðið undanfarin tvö ár en áformin og framkvæmd þeirra voru formlega kynnt í stjórn félagsins á miðju ári 2019, samkvæmt heimasíðunni. Með þessum hætti vilja stofnendur Samherja treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri og Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri munu áfram gegna störfum sínum hjá Samherja. Á heimasíðunni er haft eftir þeim að þeir hafi fullan metnað til að taka þátt í áframhaldandi rekstri Samherja. „Félagið á mikla og bjarta framtíð fyrir sér og hefur vaxið og dafnað þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Starfsfólk okkar hefur sýnt eigendum og félaginu einstakt traust í áratugi og lagt grunn að þeim stöðugleika sem er lykilatriði í starfseminni. Nú fáum við nýja kynslóð til liðs við okkur. Við fáum tækifæri til að halda áfram að skapa verðmæti með fullnýtingu hráefnis, veita vinnu og starfsöryggi og tryggja enn frekar þau mikilvægu gildi um sjálfbærni og vandaða umgengni um auðlindina sem verið hefur stefna Samherja frá upphafi.“
Skipt upp í tvennt 2018
Samherja var skipt upp í tvö fyrirtæki á árinu 2018. Það var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017.
Eftir það er þorri innlendrar starfsemi Samherja og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi.
Inni í þeim hluta er líka fjárfestingafélagið Sæból, sem hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Auk þess er uppi rökstuddur grunur, eftir ítarlega opinberum Kveiks og Stundarinnar í nóvember í fyrra, um að Samherji hafi stundað umfangsmikla skattasniðgöngu í gegnum Kýpur og aflandsfélög og peningaþvætti á fjármagni sem endaði inn á reikningum norska bankans DNB.