Novator ehf., félag sem er að stærstu leyti í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, fjármagnaði mikinn taprekstur Frjálsrar fjölmiðlunar, fyrrverandi útgáfufélags DV og tengdra miðla, frá eigendaskiptum árið 2017 og var helsti bakhjarl fjölmiðilsins.
Þetta kemur fram í samningum sem Samkeppniseftirlitið fékk afhent þegar það fjallaði um samruna Frjálsrar fjölmiðlunar og Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins og tengdra miðla, sem tilkynnt var um í fyrra og hefur nú gengið formlega í gegn.
Þar segir orðrétt: „Í samræmi við upplýsingar í samrunaskrá og ársreikningum hefur rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar verið erfiður og móðurfélag þess Dalsdalur ehf. þurft að fjármagna reksturinn að mestu leyti með lánsfé. Af þeim sökum óskaði Samkeppniseftirlitið upplýsinga um lánveitendur félaganna. Þann 14. janúar 2020 bárust Samkeppniseftirlitinu samningar frá samrunaaðilum. Þar kom fram að félagið Novator ehf. hefur verið eini lánveitandi Dalsdals og Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins frá eigendaskiptum árið 2017.“
Hvorki Novator né Björgólfur Thor voru nokkru sinni skráðir á meðal eigenda Frjálsrar fjölmiðlunar.
Tap frá upphafi
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun var félagið Dalsdalur ehf. og eigandi þess er skráður lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok árs 2018. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Eina eign Dalsdals er Frjáls fjölmiðlun og skuld þess við félagið. Aldrei var greint frá því hver það væru sem fjármagnaði Dalsdal í ársreikningnum né í tilkynningum til fjölmiðlanefndar.
Sameinast Torgi og mynda risa
Á fimmtudagskvöldið 13. desember 2019 greindi Kjarninn frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Útgáfufélögin staðfestu svo kaupin daginn eftir. Ástæðan fyrir kaupunum var sögð vera erfitt rekstrarumhverfi, en Frjáls fjölmiðlun hefur verið rekin með miklu lausu tapi frá því að félagið var stofnað til að kaupa DV og tengdra miðla árið 2017.
Með kaupunum á DV og tengdum miðlum er Torg orðið að einu stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.