Þeim fyrirtækjum sem ætla að nýta sér hlutabótaleiðina verður gert að staðfesta að þeir hafi ekki í hyggju að greiða út arð til hluthafa, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óumsamda kaupauka, kaupa eigin hlutabréf eða greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en þremur milljónum króna til 31. maí 2023.
Þetta kemur fram í frumvarpi sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun um framhald hlutabótaleiðarinnar.
Mikil gagnrýni hefur komið fram á ýmis stöndug fyrirtæki sem ákváðu að setja hluta af starfsfólki sínu á hlutabótaleiðina þrátt fyrir að hafa ekki orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna COVID-19 faraldursins. Með því greiddi ríkissjóður allt að 75 prósent af launum þess starfsfólks. Flest stór fyrirtæki sem þetta gerðu hafa ákveðið að annað hvort endurgreiða hlutabæturnar eða í það minnsta hætta að láta starfsmenn sína þiggja þær. Á meðal fyrirtækja sem tekið hafa þá ákvörðun eru Skeljungur, Hagar, Festi, Origo, Brim, Össur, Reginn, Kaupfélag Skagfirðinga og Össur. Einu skráðu félögin sem vitað er að hafi skráð starfsfólk á hlutabætur sem hafa ekki endurgreitt eða tilkynnt um að þau séu hætt að nýta hlutabótaleiðina eru Icelandair, sem rær nú lífróður og hefur sagt upp mörg þúsund manns, og fjarskiptafyrirtæki Sýn.
Skilyrði um tekjufall og heimild til að krefjast endurgreiðslu
Hlutastarfaleiðin verður framlengd til 31. ágúst. Auk ofangreindra skilyrða verður því bætt við hana að samdráttur þarf að nema 25 prósentum hið minnsta í starfsemi fyrirtækja frá 1. mars 2020 og til þess dags sem launamaður sækir um atvinnuleysisbætur eða staðfestir áframhaldandi nýtingu sína á hlutabótaleiðinni.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir enn fremur að Vinnumálastofnun hafi fengið auknar heimildir til gagnaöflunar og verður þannig heimilt að krefja vinnuveitendur um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta auk 15 prósent álags komi í ljós að skilyrði fyrir greiðslu bótanna hafi ekki verið uppfyllt. Þá verður Vinnumálastofnun heimilt að birta lista yfir vinnuveitendur launafólks sem fær greiddar bætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
Heimilt verður að miða við mánaðarleg meðallaun ársins 2019 og taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur Fæðingarorlofsjóði miðuðust við hafi launamaður fengið greiðslur úr sjóðnum á því tímabili sem horft er til.
Frumvarp um styrk til uppsagna lagt fram
Á ríkisstjórnarfundinum í morgun var líka samþykkt frumvarp um fjárstuðning til fyrirtækja úr ríkissjóð til að greiða hluta launakostnaðar fyrirtækja á uppsagnarfresti launþega. Skilyrði fyrir stuðningnum eru að veruleg fjárhagsleg röskun hafi orðið á atvinnurekstri vegna ráðstafana sem gripið hefur verið til eða aðstæðna sem að öðru leyti hafa skapast vegna faraldurs kórónuveiru.
Úrræðið sem felst í frumvarpinu tekur til þeirra sem stunda atvinnurekstur, hófu starfsemi fyrir 1. desember 2019 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á Íslandi. „Stuðningurinn nemur að hámarki 85 prósent af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti, þó að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda og að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á, fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf. Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.“