Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að flugfreyjur standi í stórkostlega erfiðri baráttu og að ekki sé auðvelt að vera bjartsýnn fyrir þeirra hönd. „Valdaójafnvægið er hræðilegt. Kvennastétt gegn auðvaldinu. Ég get varla ímyndað mér hvernig þeim líður. En ég veit að þær eiga allan minn stuðning skilið. Og okkar allra. Þær eru í raun að taka slaginn fyrir okkur öll, vinnandi fólk. Um það hvað stjórarnir komast upp með þegar kreppan mætir enn eina ferðina.“
Þetta skrifar hún í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Ýmislegt hefur gengið á í kjarabaráttu flugfreyja að undanförnu og erfiðlega hefur gengið að semja. Í frétt RÚV í dag kemur fram að boðað hafi verið til nýs samningafundar Icelandair og Flugfreyjufélagsins eftir hádegi en tólf tíma fundi þeirra í gær lauk laust eftir miðnætti.
Nú kemur í ljós hvað það raunverulega þýðir að við séum öll í þessu saman
Sólveig Anna segir að á flugfreyjur eigi að leggja hræðilegar byrðar; ábyrgðina á að fórna réttindum sem áratugabarátta hafi fært þeim. Auðstéttin ætli eins og ávallt að ákveða – á algjörlega ólýðræðislegan hátt – hvaða áhrif þessi kreppa hafi á vinnuaflið. Og valdastétt þessa lands sitji þögul hjá og geri ekkert til að aðstoða flugfreyjur.
„Afhjúpunin heldur áfram. Nú kemur í ljós hvað það raunverulega þýðir að við séum öll í þessu saman; við eigum öll að vera í því saman að tryggja að valdaójafnvægið haldist óbreytt, að stjórar og eigendur fyrirtækjanna hafi á endanum allt um allt að segja og hafi þess vegna valdið til að þröngva samningum upp á fólk sem það vill ekki,“ skrifar hún.
Stillt upp sem óvinum þjóðarinnar
Sólveig Anna bætir því við að hún og félagar hennar í Eflingu þekki „það ömurlega andlega ofbeldi betur en flestir á þessu landi“. Í tvö ár hafi þau þurft að hlusta á það – því sem næst stanslaust – að barátta þeirra fyrir efnahagslegu réttlæti sé hryllileg ógæfa. „Okkur hefur verið stillt upp sem óvinum þjóðarinnar. Láglaunakonan hefur verið gerð ábyrg fyrir því sem næst öllu; viðhald stöðugleikans hefur oftar en ekki verið alfarið á hennar vinnulúnu herðum. Margmilljón-króna mennirnir hafa staðið þétt saman í að reyna að kremja réttlætisbaráttu kven-vinnuaflsins. En við höfum ekki látið það á okkur fá. Og sameinuð og staðföst höfum við náð að knýja fram viðurkenningu á því að sögulega vanmetin kvennastörf ættu inni sína leiðréttingu. Það var erfitt en það tókst.“
Hún segist enn fremur horfa yfir vinnumarkaðinn með femínískum stéttabaráttu-gleraugum. „Ég veit að barátta okkar er rétt að byrja og við eigum eftir að taka ótalmarga slagi. Við eigum eftir að þurfa að berjast fyrir því að ríkisvaldið fari ekki í niðurskurð á okkar kostnað. Við eigum eftir að þurfa að berjast fyrir því að á okkur sé hlustað og eftir okkar vilja sé farið. En þrátt fyrir þá erfiðleika sem við okkur blasa og þá stöðu sem við erum í ætla ég að segja að ég hef trú á því að róttæk barátta vinnandi kvenna, samstaða og staðfesta muni skila okkur árangri. Geti búið til réttlátara samfélag,“ skrifar hún.
Að lokum segir hún að við hljótum öll að senda kveðju til flugfreyja. „Gangi ykkur vel, við erum sannarlega öll í þessu með ykkur. Áfram stelpur!“
Ég stend með flugfreyjum. Flugfreyjur standa nú í stórkostlega erfiðri baráttu. Á þær á að leggja hræðilegar byrðar;...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Monday, May 18, 2020