Hagar, stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi, hagnaðist um tæpa 3,1 milljarða króna á síðasta rekstrarári sínu, sem lauk 1. mars síðastliðinn. Félagið hefur ákveðið að víkja frá arðgreiðslustefnu sinni og greiða ekki út arð þrátt fyrir hagnað og er það rökstutt með vísan við yfirstandandi ástand vegna COVID-19 faraldursins.
Breyting á framkvæmdastjórn Haga, sem greint var frá í lok síðasta mánaðar, kostar félagið 314,5 milljónir króna. Í þeirri breytingu felst að Finnur Árnason, sem hefur verið forstjóri félagsins um árabil, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, láta af störfum að eigin ósk. Þegar hefur verið greint frá því að Finnur Oddsson, sem hefur verið forstjóri Origo, taki við starfi Finns í sumar en eftirmaður Guðmundar hefur enn ekki verið ráðinn.
Söluaukning milli ára
Hagar reka 46 verslanir innan fimm smásölufyrirtækja og tveggja vöruhúsa. Þá rekur félagið 28 Olísstöðvar um land allt auk 41 ÓB-stöð. Meginstarfsemi Haga er á sviði matvöru en innan þess eru tvær af stærstu verslunarkeðjum landsins, Bónus og Hagkaup, svo og stoðstarfsemi á sviði innkaupa og dreifingar. alls nam vörusala Haga á síðasta rekstrarári 116,4 milljörðum króna og framlegð tímabilsins var 22,2 prósent.
EBITDA-hagnaður – hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta — var 8,9 milljarðar króna, og handbært fé nam 2,2 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 24,6 milljarðar króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið 39,2 prósent.
Ætla ekki að greiða arð
Arðgreiðslustefna Haga er þannig að stefnt er á að félagið greiði hluthöfum sínum árlegan arð, sem nemi að lágmarki 5 prósent hagnaðar næstliðins rekstrarárs. Að kaupir félagið eigin bréf og fasteignir á hagstæðu verði sem nýtast félaginu í starfsemi sinni.
Þrátt fyrir þessa yfirlýstu stefnu hefur stjórn Haga ákveðið að leggja til við aðalfund, sem fer fram þann 9. júní næstkomandi., að ekki verði greiddur arður til hluthafa vegna reikningsársins 2019/20. Ástæða þess að vikið er frá arðgreiðslustefnu félagsins er vegna þeirrar „óvissu sem nú ríkir um efnahagshorfur í kjölfar COVID-19 faraldursins.“
Endurgreiddu 36 milljónir
Stjórn Haga ákvað í 8. maí síðastliðinn að endurgreiða Vinnumálastofnun þann kostnað sem féll til vegna starfsfólks dótturfyrirtækja Haga sem nýttu sér hlutabótaleiðina í aprílmánuði, en félagið hafði verið gagnrýnt fyrir að kaupa eigin hlutabréf og færa þannig fé til hluthafa sinna á sama tíma og félagið nýtir hlutabótaúrræði stjórnvalda.
Starfsmenn Zöru, Útilífs og veitingasölu Olís höfðu verið í skertu starfshlutfalli, en því starfsfólki var boðið að fara aftur í það starfshlutfall sem áður var, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Á þessum tímapunkti er betur hægt að sjá þau áhrif sem faraldurinn mun hafa á félagið í heild og eru þau minni en óttast var í upphafi. Nú telst því rétt að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun greiddi til starfsfólks Haga í aprílmánuði,“ sagði í tilkynningu félagsins, en þar kemur fram að endurgreiðslan nemi um 36 milljónum króna.