Fimmtán þingmenn segjast hafa orðið fyrir einelti í starfi eða í tengslum við starf sitt, eða 35,7 prósent þeirra 42 þingmanna sem tóku afstöðu til spurningarinnar í könnun á starfsumhverfinu á Alþingi sem framkvæmd var fyrr á árinu og birt var á vef Alþingis í dag.
Alls 20 prósent af þeim 153 starfsmönnum á Alþingi sem svöruðu könnuninni sögðust hafa orðið fyrir einelti í starfi sínu og 18,4 prósent þátttakenda sögðu að þeir hefðu einhverntímann orðið fyrir kynbundinni áreitni á starfstíma sínum á Alþingi eða í tengslum við starf sitt þar.
Í síðarnefnda hópnum voru 14 þingmenn, af alls 44 þingmönnum sem svöruðu spurningunni. Meirihluti þeirra starfsmanna á Alþingi sem sögðust hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni sögðu að það hefði verið af hendi fleiri en eins einstaklings.
Þeir sem beittu kynbundinni áreitni voru samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar að miklum meirihluta karlar, eða 74 prósent. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem sögðust hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni sögðust ekki hafa tilkynnt áreitnina, eða 25 af þeim 27 starfsmönnum á Alþingi sem sögðust hafa orðið fyrir slíkri áreitni.
Í tilkynningu frá Alþingi um niðurstöður könnunarinnar segir að hún hafi leitt í ljós að erfið samskipti, einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni hafi fremur mælst meðal þingmanna en almennt meðal starfsfólks skrifstofu Alþingis.
Helmingur þingmanna telur að starf sitt hafi valdið fjölskyldunni erfiðleikum
Þingmenn beðnir um að svara áttum beinum spurningum um áhrif þingstarfsins, sem samdar voru upp úr sambærilegum rannsóknum sem lagðar hafa verið fyrir á evrópskum þjóðþingum.
Alls svöruðu 45 þingmenn þessum spurningum og í ljós kom að helmingur þeirra taldi að starf þeirra sem þingmenn hefði valdið fjölskyldumeðlimum þeirra erfiðleikum. Hlutfallslega voru svipað margar konur og karlar sem sögðu að svo væri.
Af þeim höfðu einnig 23,3 prósent upplifað að myndir og/eða ummæli um þau sem höfðu kynferðislegar vísanir eða inntak hefðu birst í fjölmiðlum, Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 31,6 prósent kvenkyns þingmanna og 16,7 prósent karla á þingi.
Þá töldu 29,5 prósent sig hafa orðið fyrir áreitni og hegðun sem væri ítrekuð og ógnandi. Hlutfallslega fleiri konur en karlar höfðu slíka reynslu eða 36,8 prósent kvenna og 24 prósent karla á þingi.
Tæp 16 prósent þingmannanna sem svöruðu greindu svo frá því að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í tengslum við starf sitt á Alþingi og þá greindu 14,6 prósent svarenda frá því að nánum fjölskyldumeðlimum hefði verið hótað ofbeldi í tengslum við störf sín á Alþingi.
Niðurstöðurnar „sláandi“ að mati forseta Alþingis
Alls var könnunin send á 206 manns sem vinna á Alþingi, þingmenn, starfsmenn þingflokka og starfsfólk Alþingis. Svarhlutfallið könnunarinnar, sem Félagsvísindastofnun vann, var því 74,3 prósent.
Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis sagði við upphaf þingfundar fyrr í dag að niðurstöðurnar væru nokkuð sláandi og þau skilaboð þingforsetans eru ítrekuð í tilkynningu þingsins um könnunina.
„Ég tel afar mikilvægt að þessi könnun hafi verið gerð sem liður í aðgerðum, í ferli, til að takast á við og laga það sem betur má fara. Við hljótum að taka niðurstöðurnar alvarlega, sláandi sem þær eru, fylgja þeim eftir og halda vinnunni áfram,“ er haft eftir Steingrími.
Forsætisnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum í janúar að stofna jafnréttisnefnd Alþingis. Nefndin er skipuð þeim Guðjóni Brjánssyni og Bryndísi Haraldsdóttur af hálfu forsætisnefndar og af hálfu starfsfólks skrifstofu Alþingis sitja í henni Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri og Saga Steinþórsdóttir starfsmannastjóri.
Samkvæmt tilkynningu frá Alþingi er nefndinni ætlað að ræða eftirfylgni könnunarinnar og mun jafnréttisnefnd Alþingis hafa samráð við jafnréttisnefnd skrifstofu Alþingis eftir því sem tilefni verður til.