Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) hefur hafnað lokatilboði um nýjan kjarasamning frá Icelandair. Viðræður milli deiluaðila hafa staðið yfir um nokkurra vikna skeið enda hefur verið greint frá því að gerð kjarasamnings við lykilstéttir sé ein af forsendum þess að Icelandair geti sótt sér nálægt 30 milljörðum króna í nýtt hlutafé. Áður höfðu samninganefndir Icelandair og FFÍ átt í viðræðum í um 16 mánuði án þess að niðurstaða fengist í kjaramál flugfreyja og flugþjóna. Icelandair hefur þegar náð samningum við flugvirkja og flugmenn.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir þessa niðurstöðu mikil vonbrigði. „Þetta var okkar lokatilboð og byggir það á sama grunni og þeir samningar sem gerðir hafa verið við stéttarfélög flugmanna og flugvirkja. Í tilboðinu eru fólgnar grunnlaunahækkanir, aukinn sveigjanleiki varðandi vinnutíma en á sama tíma tryggir það samkeppnishæfni og sveigjanleika Icelandair. Því miður verður ekki lengra komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og þurfum við nú að skoða aðrar leiðir. Við ætlum okkur að koma félaginu í gegnum þær krefjandi aðstæður sem nú ríkja og styrkja rekstur þess til framtíðar.”
Í tilkynningu frá félaginu segir að eftir að FFÍ lagði fram tillögur sem ræddar hafi verið í morgun ítrekaði Icelandair lokatilboð sitt sem tók mið af þeirri umræðu sem fór fram, að því marki sem félagið treysti sér til. Í kjölfarið hafnaði samninganefnd FFÍ tilboði Icelandair. „Að mati Icelandair eru tillögur FFÍ þess eðlis að samningurinn fari í kjölfarið langt frá þeim markmiðum sem sett voru í kjaraviðræðum félagsins við stéttarfélög flugstétta, en Icelandair hefur þegar gert langtímasamninga við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugvirkjafélag Íslands (FVFÍ). Þeir samningar kveða í meginatriðum á um sveigjanleika og viðbót við vinnuskyldu og styðja þar með við markmið Icelandair Group um að auka samkeppnishæfni félagsins á alþjóðamarkaði en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur starfsfólks og tryggja því gott starfsumhverfi.“
Icelandair segir að tilboðið sem hafi verið hafnað hafi innihaldið eftirgjafir frá fyrra tilboði Icelandair sem áttu að koma til móts við þau sjónarmið félagsmanna þá. „Tilboðið fól meðal annars í sér hækkun allra grunnlauna, með sérstakri áherslu á lægstu laun, val um starfshlutfall, að flugstundahámörk innan mánaðar væru færð niður, auk þess sem skorður voru settar um hámarksfjölda lausráðinna flugfreyja og flugþjóna.“
Icelandair Group tilkynnti í lok síðasta mánaðar að félagið ætlaði að auka hlutafé sitt um 30 þúsund milljón hluti. Útgefið hlutafé í dag er 5.437.660.653 hlutir. Núverandi eign hluthafa verður því 15,3 prósent af útgefnu hlutafé ef það tekst að selja alla ætluðu hlutafjáraukninguna.
Fyrirhugað hlutafjárútboð, sem verður almennt og fer fram í júnímánuði, á að safna rúmlega 29 milljörðum króna, eða 200 milljónum Bandaríkjadala, í aukið hlutafé. Miðað við það má ætla að til standi að selja hvern hlut í hlutafjárútboðinu á rúmlega eina krónu á hlut.
Tekin verður ákvörðun um hvort að af útboðinu verði á hluthafafundi sem haldinn verður á föstudag, 22. maí.