Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti bankans um 0,75 prósentustig, niður í eitt prósent. Vextir hafa verið lækkaðir þrívegis frá því að yfirstandandi efnahagsástand vegna COVID-19 faraldursins hófst og alls hafa stýrivextir lækkað um 3,75 prósentustig frá því í maí í fyrra. Þeir hafa aldrei verið lægri í Íslandssögunni.
Í tilkynningu hennar kemur einnig fram að ákveðið hefur verið að hætta að bjóða upp 30 daga bundin innlán. „Felur það í sér að meginvextir bankans verða virkari og vaxtaskilaboð bankans skýrari. Aðgerðin ætti að öðru óbreyttu að auka laust fé í umferð og styrkja miðlun peningastefnunnar enn frekar.“
Verðbólga mældist 2,2 prósent í apríl. Hún hefur samfellt verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í desember 2019. Í tilkynningu peningastefnunefndar er bent á að gengi krónunnar hafi lækkað frá því að farsóttin barst til landsins en á móti vegi mikil lækkun olíuverðs og lækkun matvæla- og hrávöruverðs. „Þá hafa verðbólguvæntingar lítið breyst og kjölfesta þeirra í verðbólgumarkmiði bankans virðist traust. Samkvæmt spá Seðlabankans eykst verðbólga lítillega á næstu mánuðum vegna áhrifa gengislækkunar krónunnar. Aukinn slaki í þjóðarbúinu mun hins vegar vega þyngra þegar líða tekur á þetta ár og horfur eru á að verðbólga verði undir 2% á seinni hluta spátímans.“