Flugmenn samþykktu breyttan kjarasamning við Icelandair með yfirgnæfandi meirihluta en rafrænni kosningu lauk klukkan 16:00 í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna í dag.
Samkvæmt tilkynningunni var þátttakan 96 prósent en 96,22 prósent þeirra sem svöruðu samþykktu samninginn og telst hann því samþykktur. 2,6 prósent kusu gegn honum og 1,18 prósent skiluðu auðu atkvæði.
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir í tilkynningunni það vera ánægjulegt að sjá „samstöðu okkar fólks á þessum erfiðu tímum. Icelandair er og verður mikilvægur hluti af efnahagslífi Íslands og hryggjarstykkið í öflugri viðspyrnu í kjölfar faraldursins sem lamað hefur flugsamgöngur undanfarna mánuði.“