Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, áformar að leggja fram nýtt frumvarp til laga um loftferðir næsta vetur en um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga. Endurskoðunin er nú komin á samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 19. júní næstkomandi.
Á samráðsgáttinni segir að núgildandi lög um loftferðir séu nokkuð komin til ára sinna og þrátt fyrir fjölda breytinga sé talið tímabært að yfirfara þau heildstætt.
Markmið heildarendurskoðunar og þeirra áforma sem hér eru lögð fram er, samkvæmt stjórnvöldum, einkum að tryggja flugstarfsemi skýra lagaumgjörð í samræmi við flugstefnu, stuðla að samkeppnishæfni flugstarfsemi hér á landi og að umgjörð eftirlits sem henni er búin sé í samræmi við þær reglur sem gilda innan EES. Þá sé jafnframt hugað að því að tryggja ESB-reglugerð, afleiddum EES-gerðum á sviði flugöryggis og öðrum EES-gerðum fullnægjandi lagastoð og skýrar heimildir séu fyrir hendi til setningar reglugerða á grundvelli laganna.
Óska eftir ábendingum og tillögum
Á samráðsgáttinni segir jafnframt að í þeirri endurskoðun sem fara mun fram verði byggt á þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Beri þar sérstaklega að nefna EES-gerðir á sviði flugöryggis, flugverndar, neytendaverndar og umhverfisverndar. Einkum ESB-reglugerð um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins og þeim afleiddu gerðum sem á reglugerðinni byggja og fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn og innleiða í landsrétt. Enn fremur aðra alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt þar á meðal samninginn um sameiginlega evrópska flugsvæðið frá 2006.
Samfara endurskoðun sé einnig áformað að leggja til „nauðsynlegar breytingar á lögum“ svo hægt sé að fullgilda þrjá alþjóðasamninga á sviði flugverndar. Þá sé með frumvarpinu einnig áformað að gera breytingar á fáeinum öðrum lögum til að ná framangreindum markmiðum og fella brott tvenn lög sem talin eru úrelt.
Sérstaklega er óskað eftir ábendingum og eða tillögum frá hagsmunaaðilum sem stutt geta við þá vinnu sem fram undan er.