Vinnumálastofnun hefur birt lista yfir þau fyrirtækið sem nýttu hlutabótaleiðina, en listinn er takmarkaður við þau fyrirtæki sem settu sex starfsmenn eða fleiri á hana. Á heimasíðu stofnunarinnar segir að með þeim hætti sé orðið við þeirri „kröfu með fullnægjandi hætti, að birta upplýsingar um og veita aðhald með ráðstöfun á opinberu fé, tryggja gagnsæja stjórnsýslu, gæta almannahagsmuna og tryggja um leið að persónuvernduð réttindi einstaklinga.“
Alls staðfestu 2.950 fyrirtæki samkomulag um að setja einn starfsmann á hlutabótaleiðina, 1.138 settu tvo starfsmenn, 568 þrjá starfsmenn og 372 fyrirtæki settu fjóra starfsmenn á leiðina. Þá settu alls 245 fyrirtæki fimm starfsmenn á hlutabætur.
Á vef Vinnumálastofnunar segir það ákall sem verið hefur um birtingu listans, sem hefur komið bæði frá almenningi og stjórnmálamönnum, sé skiljanlegt þar sem miklir efnahagslegir hagsmunir séu í húfi. Viðbúið er að hlutabótaleiðin muni kosta skattgreiðendur nokkra tugi milljarða króna.
Vinnumálastofnun bendir þó á að með því að birta upplýsingar yfir öll fyrirtæki sem hafa staðfest samkomulag um minnkað starfshlutfall hjá starfsfólki sínu, kunni hún um leið að vera að upplýsa um þá einstaklinga sem hafa sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga. „Hér vegast því á mikilvægir hagsmunir sem stofnuninni er skylt að vernda. Annars vegar réttur almennings til upplýsinga um ráðstöfun á opinberu fé og hins vegar réttur einstaklinga og vernd persónuupplýsinga þeirra. Enginn einstaklingur sem sækir um greiðslur atvinnuleysistrygginga á að eiga það á hættu að birtar verði upplýsingar á opinberum vettvangi þar að lútandi. Vinnumálastofnun getur ekki brugðist þeim trúnaði. Af því leiðir að taka verður til skoðunar hvort upplýsingar sem birtar eru skulu að einhverju leyti takmarkaðar. Á það einkum við um einstaklinga í eigin atvinnurekstri og nöfn fámennra fyrirtækja þar sem birting á nafni fyrirtækisins getur um leið gefið til kynna upplýsingar um þann starfsmann eða þá starfsmenn sem fá greiddar atvinnuleysistryggingar.“
Kjarninn greindi frá því í vikunni að þrettán fyrirtæki nýttu hlutabótaleið stjórnvalda fyrir 150 starfsmenn eða fleiri hvert í síðasta mánuði. Í heildina voru þessi þrettán fyrirtæki með um 14 prósent allra þeirra starfsmanna sem nýttu sér hlutabótaúrræðið, eða vel á fimmta þúsund manns.
Átta af þessum fyrirtækjum eru í ferðaþjónustutengdri starfsemi, fjögur í verslun og eitt í iðnaði.
Langstærst þessara fyrirtækja er Icelandair, sem setti 92 prósent allra starfsmanna sinna í minnkað starfshlutfall í mars.