Ég held að enginn viti nákvæmlega svarið við því hvernig best er að opna landamæri. Allar þjóðir heims eru að glíma við þessa spurningu. Hvað á að gera – hver er besta og réttasta leiðin.
Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans sem var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Kristján spurði hann í upphafi þáttar hvernig yfirvöld taki ákvarðanir um að opna landamæri sín á ný, líkt og Spánverjar hafa nú ákveðið að gera. Már sagðist telja að slík ákvörðun væri að sumu leyti hagsmunamat. Hagrænir þættir væru settir á vogarskálarnar á móti þeim heilsufarslegu. „Þetta er snúið og tilfinningaþrungið mál.“
Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein á Spáni og því má, að mati Más, ganga út frá því að hagsmunir hennar hafi vegið þungt við ákvörðun stjórnvalda. Ráðamenn ólíkra landa líti á þetta með mismunandi augum. „Hvað er síðan rétt að gera, það er önnur saga,“ sagði Már.
En myndi einhver mæla með því að ferðast til Spánar á næstunni?
Að mati Más hafa miklar breytingar orðið á hegðun fólks síðustu mánuði. Fólk hefur tamið sér fjarlægðarreglur, aukið hreinlæti og fleira. „Við vitum meira um veiruna, hvenrig hún smitast. Þorri fólks veit þetta,“ sagði hann.
Fyrir þá sem eru skynsamir og varkárir, „það er í lagi fyrir þá að ferðast til Spánar, ég get ekki ímyndað mér annað.“
En svo er það annað mál hvort að fólk fylgi hinum nýju samfélagslegu reglum, t.d. þeir ferðamenn sem munu koma hingað til lands. „En þetta er eins og með margt annað, þessi óvissa. Þú veist ekki hvort ferðamaður hegðar sér vel. En við vitum ekki hvað þetta mun hafa í för með sér.“
Sáttur við ákvörðunina
Spurður hvað þyrfti að hans mati að gerast svo að landamærunum hér yrði aftur lokað benti hann á að ef mörg smit kæmu upp á mörgum stöðum þá væri að fara af stað faraldur og þá þyrfti að bregðast við. Yfirvöld hér á landi hefðu lært margt síðustu mánuði og ef smit koma aftur upp verði beitt þeim úrræðum sem til staðar eru.
Már sagðist sáttur við þá ákvörðun að opna landið en sagði að setja þyrfti eins marga varnagla og hægt væri svo að inn í samfélagið komi ekki aftur óheft smit. En hann benti á að allar forsendur fyrir því að fá smit inn í landið væru enn til staðar. „Við erum með efniviðinn í annan faraldur og þess vegna þurfum við að hegða okkur skynsamlega. Ríkisstjórnin og heilbrigðisyfirvöld þurfa að setja eins mikla fyrirvara á komur fólks og hægt er.“
Að skima fólk við komuna til landsins og beita áfram sóttkví væru allt saman leiðir til þess að ná því markmiði. Hann benti einnig á nauðsyn þess að fræða ferðamenn. „Ef allt þetta gengur eftir þá vonar maður að það verði ekki meiriháttar áföll.“
Már sagði að sumir teldu nær óumflýjanlegt að annar faraldur blossi upp. Sagði Már mótefnamælingar þar skipta sköpum. Hins vegar væri ekki ljóst hversu mikla vörn mótefni væri að veita þeim sem hefðu sýkst og náð sér af sjúkdómnum. Kórónuveirur almennt gangi ár eftir ár í samfélögum. Mótefnið sem myndast dugar gegn þeim í kannski tvö ár og svo getur fólk smitast aftur. Hins vegar væri ekkert vitað um það hversu lengi mótefni gegn nýju kórónuveirunni veitir vernd. „Kannski er þetta ævilöng vernd fyrir þessari veiru, vonandi.“
Hver vill taka fyrsta bitann?
Már líkti þeirri ákvörðun að opna landið við heita kartöflu. „Hver á að taka fyrsta bitann og brenna sig?“
Á Íslandi hafi sérfræðingar leitt aðgerðaáætlanir í faraldrinum. En svo kemur að því að opna landið og þá taka stjórnmálamennirnir aftur forystu.
Tvennt er í stöðunni: Að gera ekkert og gera eitthvað. Með því að opna landið getur svo tvennt gerst: Annar faraldur kemur eða ekki. „Það er vont að spyrða nafnið sitt við hvora ákvörðun sem er,“ sagði Már spurður um hvort það að opna landið væri pólitísk ákvörðun frekar en vísindaleg. . „Þú ert í vondri stöðu sama hvort þú gerir eitthvað eða ekkert. Þá kemur til kasta stjórnmálamanna. Þeir þurfa að taka ákvarðanir og standa og falla með því.“
Hvað muni gerast er spurning sem engan veginn er hægt að svara núna. „Ég get ekki sagt að hér verði örugglega þúsund manns sýktir. Er það mögulegt? Það er vissulega mögulegt. En frekar ólíklegt. Að því gefnu að menn verði skynsamir og þær aðgerðir sem fara á í verði komnar í gagnið.“Ef ákvörðunin
yrði aðeins tekin út frá vísindalegum grunni þá væri það faglegt mat Más að
gera ekki neitt, opna ekki landamærin, og láta aldrei koma upp smit á Íslandi. „En
það er ekki raunhæft.“