Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur það vera mjög áhugavert að skoða hugmyndir um þrepaskiptan erfðafjárskatt. Þetta kom fram í svari hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Katrínu hvort ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir samþykkt stigvaxandi erfðafjárskatti, þar sem ígildi hóflegs sparnaðar – til að mynda einbýlishúss – bæri áfram 10 prósent skatt en prósentan hækkaði til muna þegar um væri að ræða jafnvel hundruð milljónum, jafnvel milljarða.
Ástæðan fyrir fyrirspurn Loga var að „í síðustu viku var slegið Íslandsmet í arðgreiðslu þegar ágóði af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar var afhentur nýrri kynslóð“. Vísaði hann þarna í ákvörðun aðaleigenda Samherja, fyrrverandi hjónanna Þorsteins Más Baldvinssonar og Helgu S. Guðmundsdóttur, og Kristjáns Vilhelmssonar, en þau ákváðu að framselja hlutabréfaeign sína til barna sinna í síðustu viku.
Logi vildi enn fremur vita hvort áform væru uppi um stóreignaskatt á aðila sem eiga fleiri hundruð milljónir í hreina eign, líkt og forsætisráðherra boðaði fyrir kosningar. Eða hvort önnur áform væru upp og hver þau væru þá.
Katrín fjallaði ekki meira um hugmyndir um þrepaskiptan erfðafjárskatt en sagði að í öðru lagi teldi hún að hún og háttvirtur þingmaður og fleiri formenn flokka bæru ríka skyldu til þess að ljúka vinnu við nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá. „Ég rifja það upp að hér var spurt árið 2012 hvort fólk vildi sjá ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá og svaraði yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar því játandi. Sömu niðurstöður birtist í nýlegri skoðanakönnun sem formenn flokka á Alþingi létu gera. Ég tel að það sé í raun og veru undirstaða þess að við getum rætt auðlindanýtingu á Íslandi að við undirstrikum þann rétt í stjórnarskrá,“ sagði hún.
Logi kom í pontu í annað sinn og sagði að vissulega bæri þeim á þingi skylda til að afgreiða nýtt og samþykkja auðlindaákvæði í stjórnarskrá en að það væri ekki sama hvernig það liti út. „Þar þarf að passa upp á hluti eins og að það sé gjaldtaka af eðlilegum toga og tímabinding heimilda og annað slíkt. Slíkt er ekki uppi á borðinu í augnablikinu.“
Katrín svaraði og sagði að mjög mikilvægt væri að þau sameinuðust um auðlindaákvæði í stjórnarskrá og að ekki væri sama hvernig það væri. „En erum við ekki öll sammála um að auðlindirnar beri ekki að afhenda með varanlegum hætti? Er það ekki undirstöðuatriði? Og erum við ekki sammála um að í stjórnarskrá eigi að birtast grunnlínurnar sem leggja löggjafanum línurnar? Og erum við ekki sammála um hvað það merkir að afhenda ekki auðlindir með varanlegum hætti? Því að það er mjög vel útskýrt. Það er útskýrt að það eru þá annaðhvort tímabundin afnot eða uppsegjanleg með tilteknum fyrirvara sem er, ef ég man rétt, það sem stóð í auðlindaákvæði auðlindanefndarinnar 2000 og er útskýrt með þessum hætti í því frumvarpi sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda.“
Telur ráðherrann Sjálfstæðisflokkinn til framsækinna vinstri hreyfinga?
Þingmaðurinn fjallaði einnig um í fyrirspurninni nýlega grein eftir forsætisráðherrann og viðtal í vefriti Progressive International sem vakti athygli hans. „Þar segir hún meðal annars að þótt vinstri menn í Evrópu greini á um margt sé það skylda þeirra á viðsjárverðum tímum að vinna saman að því að leita lausna. Jafnframt þurfi á tímum loftslagsbreytinga og efnahagslegs ójöfnuðar að marka djarfa og framsækna stefnu með félagslegt réttlæti, jafnrétti kynjanna, loftslagsmál og alþjóðlega samvinnu að leiðarljósi,“ sagði Logi.
Hann sagðist vera þessu hjartanlega sammála og að það þyrfti kannski ekki að koma á óvart „því að um þessi verkefni og skyldu vinstri flokka hef ég margoft rætt hér. Nú veit ég ekki hvort forsætisráðherra telur samstarf við Sjálfstæðisflokkinn líklegt til að ná þeim róttæku félagslegu og efnahagslegu breytingum sem hún taldi nauðsynlegar í greininni eða hvort hún telji Sjálfstæðisflokkinn jafnvel til framsækinna vinstri hreyfinga í Evrópu, eða hvort henni finnist þessi skylda vinstri flokka í Evrópu til að vinna saman að róttækum aðgerðum bara eiga við annars staðar en á Íslandi. En látum það vera og ræðum frekar ójöfnuðinn sem forsætisráðherra gerði að umtalsefni í greininni.“
Katrín þakkaði Loga fyrir að vekja athygli á „þeim ágæta félagsskap, Progressive International, sem snýst um alþjóðlegt samstarf framsækinna afla í heimi þar sem við sjáum mikið bakslag víða, til dæmis þegar kemur að réttindum fólks“.
Nægði þar að líta til næstu nágranna í Evrópu og nýlegrar löggjafar í Ungverjalandi til að mynda um réttindi transfólks. „Við höfum ekki verið á þeirri leið á Íslandi, sem betur fer, enda tel ég mjög mikilvægt að vinstri sinnaðir flokkar leiti allra leiða til að ná raunverulegum áhrifum. Þau höfum við séð birtast á þessu kjörtímabili þó að háttvirtur þingmaður vilji ekki ræða þann árangur, til að mynda í nýlegum lögum um kynrænt sjálfræði, svo ég taki bara eitt lítið dæmi. Ég gæti nefnt mörg dæmi sem tengjast jafnrétti kynjanna, loftslagsbreytingum og jöfnuði,“ sagði hún.
Nauðsynlegt að vinstri menn sameinuðust gegn hægri öflum
Logi sagði að í umræddri grein talaði forsætisráðherra enn fremur um nauðsyn þess að vinstri menn sameinuðust gegn hægri öflum, sér í lagi útlendingaandúð. „Nú geri ég mér grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn telst kannski ekki til öfgahægri afla þótt hann hafi birt sérkennilegar skoðanir sínar í til dæmis málum eins og varðaði þungunarrof og öðru og í útlendingamálum nú. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvernig forsætisráðherra getur réttlætt það að hafa eftirlátið hægri flokki sem rekur harða útlendingastefnu stjórn útlendingamála hér á landi og hvort hæstv. ráðherra, formaður hreyfingar Vinstri grænna, sé að veita flokki um ómannlega útlendingastefnu ákveðið lögmæti í núverandi ríkisstjórn.“
Forsætisráðherrann lauk máli sínu með því að segja ekki hefðu fleiri fengið alþjóðlega vernd á Íslandi en árið 2019. „Íslensk stjórnvöld fóru aðra leið, og ég var ekki hluti af ríkisstjórn þá þannig að það er ekki svo að það sé endilega mér að þakka en stjórnvöld til að mynda annars staðar á Norðurlöndum sem settu mun harðari útlendingareglur á sínum tíma þegar flóttamannabylgjan gekk yfir Evrópu. Ég veit því ekki alveg í hvað háttvirtur þingmaður er að vísa þegar um er að ræða mál sem, sem betur fer, tiltölulega mikil samstaða hefur verið um hér á þingi.“