Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann teldi að Íslendingar þyrftu að fara varlega í vindorkuna rétt eins og annað. Þeir þyrftu að skoða hana út frá þeim þáttum sem snúa að náttúrunni og náttúruverndinni til þess að geta haft áfram það land sem þeir auglýsa – sem hentaði vel fyrir ferðaþjónustu. Hann telur enn fremur að vindorka sé eitthvað sem Íslendingar eigi að skoða eins og aðra orkugjafa.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn til umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma varðandi nýtingu vindorku. Hann benti á að Orkustofnun hefði lagt til 43 virkjunarkosti til skoðunar í tengslum við vinnu verkefnisstjórnar um rammaáætlun. 34 þeirra fjölluðu um vindorku, það er vindmyllugarða sem dreifast vítt og breitt um landið.
Þingmaðurinn vísaði í frétt Stöðvar 2 síðan í gær þar sem fram kom að eigendur Hróðnýjarstaða norðan Búðardals, sem áforma 24 vindmyllur í nafni Storm Orku, hefðu falið Skúla Thoroddsen lögmanni að reka mál sitt en þeir telja vindorku ekki falla undir lög um rammaáætlun. Skúli sagði við fréttastofu Stöðvar 2 það alls ekki rétt sem umhverfisráðuneytið héldi fram að vindorka félli undir lögin.
„Það brýtur í bága við ýmis ákvæði Stjórnarskrárinnar; um eignarrétt, um atvinnufrelsi, um skipulagsvald sveitarfélaga og um jafnræði,“ sagði hann en Skúli telur þessa réttaróvissu valda skaðlegum töfum á vindorkuverkefnum þar sem Skipulagsstofnun dragi lappirnar. Hann telur ríkið geta skapað sér bótaskyldu og hefur ritað umhverfisráðherra andmælabréf.
Bergþór sagði að lögmaðurinn teldi umhverfisráðuneytið vaða í villu hvað þetta varðaði og teldi enn fremur réttaróvissuna, sem meðal annars hverfist um ákvæði stjórnarskrár um eignarrétt og atvinnufrelsi, um skipulagsvald sveitarfélaga og jafnræði, vera þeirrar gerðar að bótaskylda gæti skapast á hendur ríkisins vegna þessa.
Hann spurði því Guðmund Inga hver afstaða hans væri til þess hvort nýting vindorku ætti heima undir lögum um rammaáætlun.
Enn fremur hvort hann teldi að lög um umhverfismat og skipulagsvald sveitarfélaga næði nægilega utan um þessi verkefni og hvort hann teldi regluverkinu ábótavant. „Má eiga von á útspili ráðherra hvað breytingar varðar og í hverju munu þær breytingar helst felast?“ spurði Bergþór.
Málefni vindorku yfir 10 MW heyra undir rammaáætlun
Guðmundur Ingi svaraði og sagði það vera mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun, það er allt sem væri yfir 10 MW.
„Fyrsta skiptið sem orkunýtingarkostir sem þessir voru teknir fyrir í rammaáætlun var þegar verkefnisstjórn 3. áfanga fjallaði um eina tvo kosti, annars vegar vindorkuver við Blöndu og hins vegar á hafinu fyrir ofan Búrfell, þannig að það er alveg klárt í okkar huga að þetta heyrir þarna undir.“
Hvað varðar spurningu Bergþórs um hvort skipulagslög og mat á umhverfisáhrifum væru nægjanleg til þess að takast á við þetta þá hefðu yfirvöld komið sér saman um að stórir orkukostir, sem eru til umfjöllunar hverju sinni í samfélaginu, ættu að fara fyrir rammaáætlun.
Umhverfisráðherra telur það vera mikilvægt að halda áfram á þeirri leið. „Það þýðir hins vegar ekki að það getur verið að mismunandi leiðir henti fyrir mismunandi orkuvinnslukosti. Það getur hentað betur að fara eina leið þegar kemur að vindi en aðra þegar kemur að vatni, það er þegar verið er að meta með hvaða hætti eigi að flokka þetta í svæði sem ber að vernda og svæði sem ber að nýta. Í því augnamiði erum við að skoða leiðir í ráðuneytinu, og höfum verið að því í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, hvort við ættum að horfa til frekari útfærslu á því þegar kemur að vindorkunni,“ sagði ráðherrann.
Skoðað heildrænt yfir landið hvar þessir kostir ættu við
Bergþór kom þá aftur í pontu og sagði að áhugavert væri að heyra frekar „um þessar vangaveltur ráðherrans er snúa að nýtingu vindorku. En bara til að ég átti mig almennilega á því þá er í rauninni afstaða ráðherra sú að verkefni yfir 10 MW fari undir rammaáætlunina en verkefni undir 10 MW séu þar utan.“
Jafnframt væri áhugavert að heyra afstöðu ráðherra til vindmyllugarða og þess að nýta vindorku með þeim hætti sem þar væri stundað á breiðum grunni. Hann spurði því Guðmund Inga hver afstaða hans væri til þessara svokölluðu vindmyllugarða og hvort ráðherra hugnaðist þetta vel sem framtíðarorkunýting eða hefði hann efasemdir um að þarna væri fetuð skynsamleg leið.
Guðmundur Ingi svaraði og sagði að verið væri að skoða á milli þeirra þriggja ráðuneyta sem hann nefndi áður hvort hægt væri að horfa til nýtingar vindorkuhugmynda með þeim hætti að skoðað yrði heildrænt yfir landið hvar þessir kostir ættu við og hvar ekki, „að grófskipta því með þeim hætti og þegar við vitum hvar þeir eiga ekki við út frá einhverjum ákveðnum viðmiðum – gæti verið friðlýst svæði, viðkvæmt fuglasvæði og svo framvegis – þá erum við búin að takmarka í rauninni það svæði þar sem hægt væri að nýta það og síðan yrði þá ákveðin málsmeðferð utan um þau svæði þar sem hægt er að nýta það og það er eitthvað sem við erum að skoða núna á milli ráðuneytanna,“ sagði hann.