Ríkisstjórnin samþykkti í morgun frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á lögum um opinber fjármál. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í dag.
Í tilkynningunni segir að frumvarpið feli í sér að veitt verði nauðsynlegt ráðrúm í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar til þess að undirbúa endurskoðun fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022, fjármálaáætlun fyrir árin 2021 til 2025 og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 og „leggja fram samhliða á þingsetningarfundi haustið 2020, svo og þær skattalagabreytingar og aðrar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem því fylgja“.
Samkvæmt heimildum Kjarnans standa yfir viðræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu hvernig haga skuli þingstörfum í vor og á næsta misseri. Þá verði fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpið lögð fram í október næstkomandi.