Landspítalinn telur sig geta sinnt verkefnum sem myndu hljótast af opnun landsins fyrir ferðamönnum þann 15. júní, að uppfylltum ýmsum skilyrðum, en telur þó að áhætta fyrir reglulega starfsemi spítalans í sumar sé veruleg. Spítalinn mun þurfa að fara á hættustig um leið og fyrsti COVID-19 smitaði sjúklingurinn þarfnast innlagnar, með tilheyrandi röskun á starfseminni.
Þetta kemur fram í bréfi sem Páll Matthíasson forstjóri spítalans ritaði ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins, 20. maí. Þar tók hann saman áhættumöt sem farsóttarnefnd spítalans og rannsóknastofa hans unnu vegna fyrirhugaðrar opnunar landamæra með skimunum fyrir veirunni á Keflavíkurflugvelli.
Í þessu heildaráhættumati forstjórans segir að helsta áskorunin varðandi opnun landamæranna í sumar sé mönnun starfseininga, sem þurfi að endurskoða í ljósi þess að orlofstími er við það að fara í hönd.
„Ljóst að strax við fyrsta smit mun mikið mæða á starfsemi sem orðin er þreytt af erfiðri baráttu við farsóttina og er á minni afköstum vegna sumarleyfa. Mönnun verður mjög flókin og staða gjörgæsludeilda sérstaklega, þar sem aukið álag er á þær deildir yfir sumarið vegna slysa, en takmörkuð geta til að bæta þar við mannskap eins og gæti þurft,“ segir í mati Páls.
Einnig segir Páll að gera þurfi skýlausa kröfu um að fólk hafi fullnægjandi tryggingar það ferðast inn í landið, því ljóst sé að kostnaður geti orðið mjög mikill hjá einstaklingum með COVID-19 veikindi á spítalanum.
Skimun einkennalausra takmarkað úrræði
Farsóttarnefnd spítalans vann áhættumat, sem Már Kristjánsson formaður nefndarinnar undirritar. Þar segir að ljóst sé að fáir innlagðir ferðamenn myndu hafa talsverð áhrif á daglega starfsemi Landspítala og draga fljótt úr getu spítalans til þess að sinna venjubundinni þjónustu, sem sé þó í lágmarki yfir sumartímann.
Talið er líklegt af hálfu nefndarinnar að einhverjir ferðamenn beri veiruna hingað til lands og útsetji eða jafnvel smiti samferðamenn sína eða Íslendinga sem þeir hitta á ferðum sínum.
„Skimun einkennalausra er takmarkað úrræði þar sem neikvætt sýni þýðir ekki endilega að viðkomandi verði jákvæður á næstu dögum. Það er því líklegra en ekki að fólk veikist og einhverjir þurfi spítalavist. Það verður mikil áskorun að manna spítalann að sumarlagi þegar stór hluti starfsmanna er í orlofi á hverjum tíma og margir eru úrvinda eftir nýafstaðinn faraldur. Þá er óvissa um hversu margir myndu gefa kost á sér í bakvarðasveit á þessum árstíma. Starfsfólk Landspítala eru miklir fagmenn og sýndu einstakan samtakamátt og útsjónarsemi í baráttunni við COVID. Flotinn er þreyttur og þarf að hvílast en fyrirsjáanlega þarf að kalla fólk inn úr sumarleyfi ef ný bylgja fer af stað,“ segir í mati farsóttarnefndarinnar.
Einnig er bent á það af hálfu farsóttanefndarinnar að ef erlendir ferðamenn smitist hér á landi sé ekki hægt að útskrifa þá til sín heima fyrr en öll veikindi þeirra eru yfirstaðin og þeir ekki lengur smitandi.
SAk metur áhættuna einnig verulega
Sjúkrahúsið á Akureyri segir í sínu áhættumati, sem Bjarni Jónasson forstjóri sendi til ráðuneytisstjórans, að áhættan fyrir röskun á venjulegri starfsemi sé veruleg.
Um leið og fyrsti COVID-19 sjúklingurinn þurfi innlögn þar verði sjúkrahúsið komið á hættustig og þurfi þá um leið að draga úr allri valkvæðri starfsemi út árið. Auk þess mun slík staða hafa áhrif á sumarleyfi og mönnun.