Langminnst er ánægjan með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að því er fram kemur í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Mest ánægja er með störf forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur.
Þetta kemur fram í frétt RÚV í dag.
Í henni segir að rúmlega 59 prósent séu ánægð með störf forsætisráðherra og 54 prósent með störf Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra en Lilja er einnig sá ráðherra sem minnst óánægja er með.
Á eftir þeim koma Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra – en 46 prósent segjast ánægð með þeirra störf. Þá eru 43 prósent ánægð með störf Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra og 39 prósent segjast ánægð með Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 37 prósent lýsa ánægju með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
Samkvæmt RÚV koma þar á eftir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sem 35 prósent eru ánægð með og jafn mikil ánægja ríkir með störf Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherrra, en rúmlega 10 prósent eru ánægð með störf Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þegar litið er á það hvernig óánægja með ráðherrana mælist kemur í ljós að langflestir eru óánægðir með Kristján Þór eða 62 prósent. 35 prósent eru óánægð með Áslaugu Örnu og Bjarna Benediktsson. 31 prósent er óánægt með störf Guðmundar Inga umhverfisráðherra og 28 prósent með Guðlaug Þór utanríkisráðherra. Þá eru 27 prósent óánægð með störf Ásmundar Einars og 26 prósent með þau Svandísi Svavarsdóttur og Sigurð Inga Jóhannsson.
Þá kemur fram í frétt RÚV að þeir þrír ráðherrar sem mest ánægja er með séu líka þeir sem minnst óánægja er með. 21 prósent er óánægt með forsætisráðherra, 18 prósent með ferðamálaráðherra og 17 prósent eru óánægð með menntamálaráðherra.
Könnunin var netkönnun, gerð dagana 8.-19. maí og var spurt hversu ánægður eða óánægður viðkomandi væri með tiltekinn ráðherra og var misjafnt í hvaða röð nöfn þeirra birtust. Heildarúrtaksstærð var 3.075 manns og þátttökuhlutfall liðlega 55,2 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.