Verðbólga mælist nú yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í fyrsta sinn síðan í nóvember síðastliðnum. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,54 prósent í maí og mælist verðbólga nú 2,6 prósent. Hún hækkar því um 0,4 prósentustig milli mánaða. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5 prósent.
Í fréttatilkynningu frá Hagstofu Íslands segir að verð á mat og drykkjarvörum hafi hækkað um 1,6 prósent, húsgögn og heimilisbúnaður hækkað um 2,9 prósent og verð á nýjum bílum hafi hækkað um 3,7 prósent. Lækkun var á reiknaðri húsaleigu um 0,6 prósent og verð á bensíni og olíum lækkaði um 3,4 prósent.
Krónan hefur veikst talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum frá áramótum og í greiningu Íslandsbanka segir að áhrif veikingarinnar hafi komið fram í verðmælingum á innfluttum vörum í apríl og maí.
Fram kemur í fréttatilkynningu Hagstofunnar að mæling og útreikningur á vísitölu neysluverðs í maí hafi gengið vel fyrir sig. Þar skipta mestu mál afléttingar á takmörkunum sem gripið var til í því skyni að hefta útbreiðslu COVID-19. Fyrirtæki sem höfðu þurft að loka væru nú opin.
Verðbólgan fór yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í júní 2018 og hélst yfir markmiði fram í nóvember 2019. Á þeim tíma reis hún hæst í 3,7 prósent í desember 2018. Fyrir sumarið 2018 hafði verðbólgan verið undir verðbólgumarkmiði frá því í febrúar 2014.