Minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill að eftirlit með hagsmunaskráningu æðstu valdhafa framkvæmdavaldsins verði fært frá forsætisráðherra til sjálfstæðrar eftirlitsnefndar og að þeirri nefnd verði gefin ríkari heimild til að safna og vinna úr upplýsingum, auk þess sem hún fái heimild til að beita viðurlögum vegna brota sem varða verulega almannahagsmuni. Þetta kemur fram í áliti hans um frumvarp þess efnis. Minnihlutann skipa Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar, og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka.
Í viðurlögunum ætti að felast, að mati minnihlutans, að þegar brot teljist sérstaklega alvarleg ætti birta niðurstöðu eftirlitsnefndar um hagsmunaárekstra opinberlega. Það ætti að gilda um ráðherra sem og aðra sem frumvarpið mun ná yfir. „Til frekari aðgerða, á borð við áminningu starfsmanns innan ráðuneytis, kann að koma, en það væri sjálfstæð ákvörðun þeirra sem stjórna því ráðuneyti sem um ræðir. Til lengri tíma telur minni hlutinn ástæðu til að útfæra viðurlög með ítarlegri hætti og leggur því til í bráðabirgðaákvæði að lögin verði endurskoðuð þegar reynsla verður komin á störf eftirlitsnefndar um hagsmunaárekstra.“
Skylda á alla í æðsta laginu til að gefa upp hagsmuni
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði frumvarpið fram í janúar. Á meðal þess sem fram kemur í frumvarpinu, er að skylda alla þá sem starfa í æðsta lagi íslenskrar stjórnsýslu og í stjórnmálum að gefa upp hagsmuni sína og gera ítarlega grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum.
Æðstu handhafar framkvæmdavaldsins og aðstoðarmenn þeirra munu ekki geta sinnt öðrum störfum samhliða sínum, verði frumvarpið að lögum og þegar þeir hætta störfum mun þeim verða óheimilt að gerast hagsmunaverðir í sex mánuði. Þeim sem lögin munu ná yfir verður enn fremur óheimilt að „nota upplýsingar sem þeir höfðu aðgang að í krafti starfs síns fyrir hið opinbera sér eða öðrum til óeðlilegs ávinnings.“
Þeir sem lögin munu ná yfir, verði frumvarpið samþykkt, munu meðal annars þurfa að skila til forsætisráðuneytisins skrá yfir nánar tilteknar eignir, skuldir og sjálfskuldarábyrgðir þ.m.t. erlendis, þegar viðkomandi hefur störf hjá Stjórnarráðinu. Sömu upplýsingum þurfi að skila varðandi maka og ólögráða börn.
Vilja að aðstoðarmenn þurfi að bíða líka
Minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill, auk áður nefndra breytinga, gera breytingu á ákvæði um biðtíma áður en starfsmenn geti tekið að sér störf við hagsmunagæslu. Í álitinu segir að engin rök standi til þess að halda aðstoðarmönnum ráðherra utan þess ákvæðis, og raunar fráleitt í ljósi þess að þeir eru sá hópur sem sækir einna mest í slík störf af þeim sem fjallað er um í lögunum.
Minni hlutinn gerir aftur á móti ekki athugasemd við þriðja meginþátt frumvarpsins, sem snýr að skráningu hagsmunavarða og samskiptum þeirra við stjórnvöld. „Sú breyting er afar mikilvæg til að ávallt sé ljóst hverjir koma að því að hafa áhrif á opinbera stefnumörkun. Við umfjöllun nefndarinnar komu aðeins fram ábendingar um minni háttar lagfæringar á þeim hluta frumvarpsins, sem orðið er við í tillögum meiri hluta nefndarinnar.“