Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti sem lagðist á einstaklinga voru 24,2 milljarðar króna í fyrra og er það hækkun um 2,7 prósent milli ára. Fjöldi gjaldenda fjármagnstekjuskatts var tæplega 40 þúsund.
Til samanburðar skilaði álagður tekjuskattur á launafólk og útsvar sem það greiðir til sveitarfélaga, en leggst ekki á fjármagnstekjur, 441,5 milljörðum króna í tekjur fyrir ríkissjóð á árinu 2019. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga í fyrra.
Til fjármagnstekna teljast allar vaxtatekjur auk söluhagnaðar, arðs og leigutekjur. Skattur á fjármagnstekjur er umtalsvert lægri en á launatekjur. Fjármagnstekjuskattur var hækkaður úr 20 í 22 prósent í byrjun árs 2018.
Stærsti einstaki fjármagnstekjuliðurinn voru arðgreiðslur, en tekjur vegna þeirra voru 46,1 milljarður króna á árinu 2019. Það er 5,3 prósent meira en árið áður. Þrátt fyrir að arðgreiðslur hafi hækkað þá dróst fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2019 saman og var rúmlega 13 þúsund.
Alls 75 prósent af eignum heimila eru fasteignir
Framtaldar eignir heimilanna héldu áfram að hækka í virði í fyrra og námu alls 7.165 milljörðum króna um síðustu áramót. Alls hækkuðu þær um 8,8 prósent á árinu 2019.
Uppistaðan í eignum þorra landsmanna eru fasteignir sem þeir búa í, en heildarvirði fasteigna heimilanna var alls 5.351 milljarðar króna í lok síðasta árs, sem þýðir að 75 prósent af eignum heimilanna eru bundnar í slíkum eignum. Virði fasteigna heimilanna hækkaði um 9,4 prósent milli áranna 2018 og 2019. Skuldir þeirra eru langt undir eignunum, eða 2.175 milljarðar króna, og þær hækkuðu hlutfallslega hægar en virði eignanna, eða um 7,9 prósent á árinu 2019. Skuldir vegna íbúðarkaupa hækkuðu þó um tíu prósent milli ára.
Tæplega þriðjungur fjölskyldna skuldar ekki húsnæðislán
Í umfjöllun fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að tæplega 31 þúsund af um 104 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess, eða 29 prósent af heild. „Af þessu leiðir að nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um 9,2 prósent á árinu 2019 og nam samtals 4.989 ma.kr. Áfram fækkar í hópi þeirra sem eru með skuldir umfram eignir og hefur sú þróun nú verið samfelld í níu ár. Rúmlega 32 þúsund fjölskyldur eru nú með skuldir umfram eignir en á síðasta ári voru þær tæplega 33 þúsund.“