Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2019, námu 2,6 milljörðum króna í fyrra og runnu til rúmlega 15 þúsund manns. Heildarupphæðin dróst saman um 5,8 prósent milli ára og 9,7 prósent færri einstaklingar fengu vaxtabætur í fyrra en árið áður. Þessi þróun átti sér stað þrátt fyrir að bæði fjárhæðir hámarksvaxtagjalda og vaxtabóta hafi verið hækkaðar um fimm prósent í fyrra og að eignarmörk bótanna hafi verið hækkuð um tíu prósent.
Þetta kemur fram í umfjöllun á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga í fyrra. Þar segir að lækkun vaxtabóta skýrist nú „eins og fyrri ár skýrist fyrst og fremst af betri eiginfjárstöðu heimila[...]Nýting iðgjalda af séreignarsparnaði til greiðslu íbúðarskulda skiptir þar máli og sömuleiðis lækkun vaxta og auknar tekjur og þar með lækkandi vaxtabyrði.“
Verð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur rúmlega tvöfaldast á innan við áratug. Uppistaðan í eignum þorra landsmanna eru fasteignir sem þeir búa í, en heildarvirði fasteigna heimilanna var alls 5.351 milljarðar króna í lok síðasta árs, sem þýðir að 75 prósent af eignum heimilanna eru bundnar í slíkum eignum. Virði fasteigna heimilanna hækkaði um 9,4 prósent milli áranna 2018 og 2019. Skuldir þeirra eru langt undir eignunum, eða 2.175 milljarðar króna, og þær hækkuðu hlutfallslega hægar en virði eignanna, eða um 7,9 prósent á árinu 2019. Skuldir vegna íbúðarkaupa hækkuðu þó um tíu prósent milli ára.
Hærra eignarverð þýðir hærri fasteignagjöld
Á sama tíma og ofangreint hefur átt sér stað hefur kostnaður fasteignaeigenda vegna fasteignagjalda sem sveitarfélög innheimta stóraukist.
Þessi þróun átti sér stað þrátt fyrir að fasteignaskattar hafi verið lækkaðir árið 2018. Ástæðan er einfaldlega sú að fasteignaverð í höfuðborginni hefur hækkað mikið og þar sem álagningin er hlutfall af fasteignamati þá fjölgar krónunum sem fasteignaeigendur í Reykjavík borga þrátt fyrir að skattprósentan hafi lækkað.
Tekjur Reykjavíkurborgar af fasteignasköttum voru þannig 11,6 milljarðar króna árið 2013 og hafa því hækkað um 82 prósent frá því ári. Frá ársbyrjun 2013 og út síðasta ár hækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu um 81 prósent.
Helmingur þeirra sem fengu vaxtabætur 2016 fékk þær í fyrra
Þeim sem fá vaxtabætur hefur fækkað hratt undanfarin ár. Árið 2010 fengu til að mynda alls 56.600 fjölskyldur slíkar bætur og heildarumfang þeirra var 12 milljarðar króna, eða næstum fimm sinnum meira en greitt var út í fyrra. Vert er þó að taka fram að 2010 var verið að greiða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var 0,6 prósent af skuldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, en þó að hámarki 200 þúsund krónur fyrir einstaklinga og 300 þúsund fyrir hjón eða sambúðarfólk. Þetta var gert vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar hrunsins.
Vegna áranna 2011 og 2012 voru greiddar út almennar vaxtabætur upp á 8,6-8,7 milljarða króna árlega og 45-46 þúsund fjölskyldur fengu slíkar bætur. Vegna ársins 2013 voru almennar vaxtabætur um átta milljarðar króna og þiggjendur þeirra tæplega 42 þúsund fjölskyldur.
Vegna ársins 2014 voru greiddar úr vaxtabætur upp á sjö milljarða króna til 38 þúsund fjölskyldna. Ári síðar voru almennar vaxtabætur 5,2 milljarðar króna og þiggjendur þeirra 29.170 fjölskyldur. Þeim fækkaði um heil 21,3 prósent milli áranna 2014 og 2015.
Árið 2016 fengu 29.170 fjölskyldur vaxtabætur og fækkaði þá um 21,3 prósent milli ára.
Vegna ársins 2019 námu greiðslurnar, líkt og áður sagði, 2,6 milljörðum króna og fóru til rétt rúmlega 15 þúsund manns. Fjöldi þeirra fjölskyldna sem fær vaxtabætur hefur því helmingast frá árinu 2016.