Fasteignamat Þjóðskrár lækkar víða miðsvæðis í Reykjavík á milli ára, en fasteignamat stofnunarinnar fyrir árið 2021 var birt í morgun. Í heildina hækkar fasteignamat á landinu um 2,1 prósent frá núverandi mati, um 2,2 prósent á höfuðborgarsvæðinu en um 1,9 prósent á landsbyggðinni.
Afar misjafnt er þó á milli matssvæða á höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélaga á landsbyggðinni hvernig fasteignamatið sveiflast. Hægt er að fletta upp einstaka eignum á vef Þjóðskrár og þar geta áhugasamir einnig glöggvað sig á því hvernig mismunandi matssvæði koma út í vefsjá stofnunarinnar.
Sem dæmi um breytingar á höfuðborgarsvæðinu lækkar fasteignamat fjölbýlis um 8,6 prósent í Túnum í Reykjavík, en hækkar um 7,6 prósent í Teigum, næsta matssvæði handan Kringlumýrarbrautar. Í miðbæ Reykjavíkur, frá Tjörninni að Snorrabraut, hækkar fasteignamat fjölbýlis um 4,1 prósent en lækkar um 4,8 prósent á matssvæðinu í Suður-Þingholtum.
Töluverðar lækkanir eru á fasteignamati í miðborginni, en til dæmis lækkar fasteignamat á sérbýlum á matssvæðinu frá Tjarnargötu og sunnan Landakots um 7,9 prósent og fjölbýli á sömu slóðum um 3,4 prósent.
Í úthverfum Reykjavíkur og nágrannasveitarfélögum borgarinnar hækkar fasteignamat víðast hvar. Til dæmis hækkar fasteignamat fjölbýlis að meðaltali um 6,1 prósent miðsvæðis í Mosfellsbæ, um 5,7 í Grafarholti, um 7,7 prósent í Urriðaholti í Garðabæ og um 4,6 prósent miðsvæðis í Hafnarfirði.
Hæst er meðalfermetraverð sérbýlis á Ægisíðu og Högum í Vesturbæ Reykjavík, eða 576.000 kr. á fermeter. Fasteignamat sérbýlis hækkar þar um 3,1 prósent á milli ára. Meðalfermetraverð fjölbýlis er hæst í Skerjafirði, eða 591.000 kr. og hækkar fasteignamatið fjölbýlis þar um 4,7 prósent á milli ára.
Fasteignaskattar taka mið af fasteignamati Þjóðskrár og fara því hækkandi með hækkandi fasteignamati. Fasteignamatið byggir meðal annars á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum, auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2020 og tekur gildi 31. desember. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat rennur út degi fyrr, samkvæmt því sem fram kemur á vef Þjóðskrár.
Atvinnuhúsnæði í miðborg Reykjavíkur stendur nærri í stað
Heilt yfir hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu um 1,7 prósent frá yfirstandandi ári, um 1,6 prósent á höfuðborgarsvæðinu en um 1,9 prósent á landsbyggðinni. Mjög litlar hækkanir verða á fasteignamati atvinnuhúsnæðis í miðborg Reykjavíkur.
Fasteignamat verslunarhúsnæðis hækkar þar til dæmis ekki neitt á milli ára, en fasteignamat atvinnuhúsnæðis sem notað er undir iðnað hækkar um 0,7 prósent á milli ára og fasteignamat skrifstofuhúsnæðis hækkar um 0,1 prósent. Heilt yfir hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis í Reykjavíkurborg um 0,7 prósent á milli ára.
Það er minna en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, en í Kópavogi nemur hækkunin 4,2 prósentum, á Seltjarnarnesi 5,6 prósentum, í Hafnarfirði 3,1 prósenti og í Garðabæ 2,6 prósentum, svo dæmi séu tekin.
Fasteignamat á Suðurnesjum lækkar
Fasteignamat hækkar heilt yfir í öllum landshlutum, nema á Suðurnesjum, þar sem heildarfasteignamat lækkar um hálft prósent frá yfirstandandi ári. Mest verður hækkunin á Vestfjörðum eða 8,2 prósent og þar næst á Norðurlandi vestra, eða 6,5 prósent.
Hvað einstök sveitarfélög varðar hækkar heildarfasteignamat í Ísafjarðarbæ mest, eða um 11,2 prósent frá yfirstandandi ári. Næst koma Akrahreppur, Tálknafjarðarhreppur, Blönduósbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Sveitarfélagið Skagafjörður, en þar nemur hækkunin á milli 8 og 8,8 prósentum.
Heildarfasteignamat lækkar mest í Sveitarfélaginu Vogum og Skorradalshreppi, eða um 3,6 prósent. Þá lækkar fasteignamat í Reykjanesbæ um 2,1 prósent og í Stykkishólmi um 1,7 prósent.