Fjögur prósent Íslendinga myndu kjósa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna í bandarísku forsetakosningunum, ef þeir hefðu kosningarétt. Stuðningsmenn Miðflokksins eru líklegastir til að kjósa Trump og næst þeim koma stuðningsmenn Sósíalistaflokksins. Um 96 prósent Íslendinga myndu kjósa Joe Biden. Þetta kemur fram í niðurstöðu skoðanakönnunar sem fyrirtækið EMC rannsóknir gerði í maí síðastliðnum. RÚV greinir frá.
Í frétt RÚV segir að ef aðeins sé litið til þeirra sem taka afstöðu segist tvö prósent kvenna og sex prósent karla myndu kjósa Trump. Aðrir myndu kjósa Biden. Stuðningur við Trump sé minnstur meðal kjósenda undir 35 ára aldri, eitt prósent, en mestur meðal fólks yfir 55 ára aldri, sex prósent. Biden njóti hundrað prósenta stuðnings hjá fylgismönnum Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins.
Þá kemur fram að tvö prósent stuðningsmanna Vinstri grænna og þrjú prósent Pírata lýsi stuðningi við Trump. Það sama geri sjö prósent þeirra sem kjósa Flokk fólksins og átta prósent Sjálfstæðismanna. Fjórtán prósent stuðningsmanna Sósíalista og 29 prósent Miðflokksmanna myndu kjósa Trump, samkvæmt könnuninni, ef þeir hefðu kosningarétt.
Flestir hægri menn í Vestur-Evrópu eiga hugmyndalega samleið með Demókrötum
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla, gerði könnunina að umtalsefni á Facebook í gær. „Allar kannanir meðal almennings sem ég hef séð um stuðning Íslendinga við Demókrata og Repúblikana í gegnum tíðina hafa sýnt nánast algert fylgisleysi Repúblikana hér, þó fáeinir hægrimenn séu hallir undir hugmyndafræði Repúblikana í seinni tíð. Sá hópur er býsna hávær, en ekki stór.“
Hann segir að hægri og vinstri í Vestur-Evrópu merki ekki efnislega það sama og hægri og vinstri í Bandaríkjunum. Flestir hægri menn – nema helst harðir nýfrjálshyggjumenn og lýðhyggjumenn – í Vestur-Evrópu eigi hugmyndalega samleið með Demókrötum um flest. Flestir hefðbundnir evrópskir hægrimenn styðji til að mynda blandaða hagstjórn, opinbert heilbriðiskerfi, menntakerfi og velferðarkerfi – þó vinstri og hægri menn í Evrópu deili um útfærslur og útgjöld ríkisins á þessum sviðum.
Þess vegna telur hann það ekki koma á óvart að 92 prósent íslenskra Sjálfstæðismanna styðji Biden og Demókrata. Það sé í venjulegum takti.
„Athyglisvert – og nýtt – er að 29 prósent kjósenda Miðflokks styðja Trump. Nú eru þeir svarendur sem styðja Miðflokk í þessarri könnun svo fáir að skekkjumörk um þessa afstöðu þeirra eru stór – og talan klárlega ekki nákvæm. En hún fylgir samt mynstri viðhorfa sem hafa mikið fylgi meðal kjósenda lýðflokka Vestur-Evrópu – og kjósenda Miðflokksins,“ skrifar Ólafur.
Þá segir hann að óvænt sé að 14 prósent Sósíalista styðji Trump í könnuninni. En svarendur úr þeim flokki eru svo fáir að talan sé líklega alveg merkingarlaus, að hans mati. 700 þátttakendur svöruðu könnuninni.
Ólafur bendir á að stærðin á fylgishópi Trumps í öllum öðrum íslenskum flokkun sé lítil, að minnsta kosti hjá kjósendum þeirra. En svarendur úr hverjum flokki séu það fáir að skekkjumörkin séu frekar stór.
Allar kannanir meðal almennings sem ég hef séð um stuðning Íslendinga við Demókrata og Repúblikana í gegnum tíðina hafa...
Posted by Ólafur Þ Harðarson on Monday, June 1, 2020