Nýtt ráðgjafarfyrirtæki, sem fyrrverandi starfsmenn Capacent á Íslandi stofnuðu snemma í síðasta mánuði eftir að ljóst var orðið að Capacent var á leið í þrot, segist í stakk búið til þess að taka við hluta þeirra verkefna sem Capacent áður sinnti fyrir viðskiptavini sína.
Fyrirtækið heitir Intenta og er ráðgjafarfyrirtæki með „skýran fókus á viðskiptagreind, rekstrarráðgjöf og stefnumótun á stafrænni vegferð“ eins og Ingvi Þór Elliðason, ráðgjafi og framkvæmdastjóri Intenta, orðar það í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Fjallað var um stofnun félagsins á vef Fréttablaðsins í síðustu viku og þar haft eftir Ingva að á næstu dögum myndi skýrast hvernig starfseminni yrði háttað. Kjarninn spurði hvort það hefði eitthvað skýrst nú.
Ingvi Þór segir í svari sínu að Intenta sé enn að stíga sín fyrstu skref, en þar starfi nú þegar níu ráðgjafar sem hafi mikla reynslu af ráðgjafaþjónustu á íslenskum markaði.
Spurður hvort Intenta muni reyna að taka við verkefnum sem Capacent fékkst áður við segir Ingvi að fyrirtækið hafi „vissulega getu og þekkingu til að taka við sumum þeirra verkefna sem Capacent sinnti áður.“
„Hvort svo verður er í höndum viðskiptavina,“ bætir Ingvi Þór við, en Intenta er ekki eina fyrirtækið sem er að verða til eftir gjaldþrot Capacent á Íslandi.
Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að Snorri Jakobsson, sem var forstöðumaður greiningardeildar Capacent, væri að stofna eigið félag um vinnu sína og hefði að eigin sögn þegar tryggt sér viðskipti flestra þeirra sem greiningardeild Capacent áður þjónustaði.
Capacent reis á rústum gamla Capacent 2010
Ingvi Þór, sem nú leiðir Intenta, var sjálfur stjórnandi Capacent á árum áður. Á því skeiði, eða árið 2010, varð gamla Capacent gjaldþrota og námu kröfur í bú félagsins alls tæpum 1,8 milljarði króna. Langstærstur hluti krafna var vegna bankaláns í erlendri mynt sem slegið var fyrir hrun til þess að fjármagna útrás til hinna Norðurlandanna.
Stofnað var nýtt félag á grunni þess gamla, sem var til að byrja með í fullri eigu starfsmanna. Það félag sendi frá sér tilkynningu um gjaldþrot 28. maí og nú er Intenta að rísa úr ösku þess, en það var stofnað þegar ljóst þótti í hvað stefndi hjá Capacent á Íslandi. Fram kom í frétt Vísis um stofnun Intenta í síðustu viku að stofngögnum hefði verið skilað inn 8. maí.
„Eftir þrotlausa vinnu síðustu vikur við að bjarga félaginu þar sem starfsmenn lögðust á eitt er staðan því miður sú að rekstrargrundvöllur félagsins er erfiður og erfitt að segja til um hversu hratt verulegur bati verður þar á. Stjórn félagsins hefur af þessum sökum í dag óskað eftir gjaldþrotaskiptum frekar en að freista þess að halda áfram rekstri með óhjákvæmilegri skuldasöfnun,“ sagði í tilkynningu frá Capacent á Íslandi 28. maí. Á fimmta tug starfsmanna störfuðu hjá fyrirtækinu.Gjaldþrotið á Íslandi sögð arðsöm langtímaákvörðun fyrir hluthafa Capacent ytra
Capacent á Íslandi var í meirihlutaeigu Capacent Holding AB í Svíþjóð og átti í samstarfi við aðskildar rekstrareiningar undir sama nafni í Svíþjóð og Finnlandi. Þær starfa áfram.
Capacent Holding AB er skráð á hlutabréfamarkað í Stokkhólmi og í tilkynningu sænska félagsins til kauphallar vegna gjaldþrots íslenska dótturfélagsins sagði að upphaf þessa árs hefði sýnt að ekki væri útlit fyrir að viðsnúningur yrði á rekstrinum hjá Íslandi, sem skilað hefði tapi eftir skatta í fyrra. Því hefði ákvörðun um að óska eftir gjaldþrotaskiptum fyrir Capacent á Íslandi verið tekin.
Edvard Björkenheim forstjóri félagsins segir í tilkynningunni að þegar horft sé framhjá einskiptiskostnaði við afskrift eignarinnar í íslenska dótturfélaginu, komi ákvörðunin til með að skila hluthöfum Capacent Holding aukinni arðsemi af hverjum hlut.