Sjálfstæðisflokkurinn fengi um það bil fjórðungsfylgi ef kosið væri til Alþingis nú, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Afar litlar breytingar eru á fylgi flokkanna frá því að Gallup framkvæmdi síðustu mælingu á kosningaætlun almennings í upphafi maímánaðar, eða á bilinu 0-0,7 prósentustig.
Samfylkingin og Vinstri græn mælast nær jafn stór í könnuninni, en báðir flokkar hafa samkvæmt henni rúmlega 14 prósent fylgi. Píratar, sem mældust næst stærsti flokkur landsins í könnun MMR fyrir skemmstu, mælast með 11 prósent fylgi í könnun Gallup nú.
Því næst kemur Miðflokkurinn með 10,4 prósent fylgi, Viðreisn mælist með 9,7 prósent stuðning og Framsóknarflokkurinn mælist með 7,7 prósent fylgi.
Aðrir flokkar næðu ekki þingmanni upp fyrir fimm prósenta þröskuldinn, samkvæmt könnuninni. Flokkur fólksins mælist með 4,4 prósent fylgi og Sósíalistaflokkurinn með 3,3 prósent fylgi.
Tæplega 12 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni taka ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og 10 prósent aðspurðra sögðu að þeir myndu ýmist skila auðu eða ekki kjósa.
Nærri 60 prósent þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina
Samkvæmt könnun Gallup nýtur ríkisstjórnin stuðnings 59,7 prósent þeirra sem á annað borð taka afstöðu til þess. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna mælist þó öllu minna, eða 46,6 prósent.
Þjóðarpúlsinn er netkönnun sem Gallup gerði dagana 4. maí til 1. júní 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.630 og þátttökuhlutfall var
54,0%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,1-1,3%. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.