Sjómannadagurinn er núna um helgina, sunnudaginn 7. júní, en vegna kórónuveirunnar verður dagurinn með öðru sniði en venjulega. Sjómannasamband Íslands (SSÍ) gerir daginn að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Facebook. „Sjómönnum ber að hrósa í þessu ástandi og hvernig þeir hafa tekist á við COVID-ástandið. Mjög lítið var um smit og sóttkví meðal sjómanna og flotinn gat verið á sjó þó sumstaðar væri dregið úr sókninni vegna ástands á mörkuðum.“
Þá kemur fram að víða um land sé búið að slá af eða fresta hátíðarhöldum vegna sjómannadagsins. Þó verði lágmarksdagskrá víða um land með heiðrunum aldinna sjómanna, minningarathöfnum og veittar viðurkenningar fyrir björgunarafrek. Auðvitað haldi sjómenn og þeirra fjölskyldur daginn hátíðlegan þó með öðrum hætti en áður.
Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti þann 6. júní árið 1938. Sá dagur var mánudagur, annar í hvítasunnu. Næstu ár var fylgt reglu sem á endanum var lögtekin árið 1987, að sjómannadagur skyldi vera fyrsti sunnudagur í júní nema hvítasunnu bæri upp á þann dag. Þá skyldi sjómannadagurinn vera viku síðar.
SFS segja að hálfa prósentið sé fallið úr gildi
Samkvæmt Sjómannasambandi Íslands er ekki mikið að frétta af kjaramálum sjómanna. „Og þó. Sjómannasamband Íslands er nú með eitt mál gegn Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fyrir Félagsdómi. Það varðar hækkun kauptryggingar sem sjómenn áttu að fá þann 1. maí í fyrra. Það stendur beinlínis skrifað í okkar samning að allar þær hækkanir sem koma á almenna markaðnum á árinu 2019 ættu einnig að koma til sjómanna. Allt tal um annað er útúrsnúningur af hálfu SFS.
Einnig er annað mál í undirbúningi fyrir Félagsdómi af hálfu SSÍ gegn SFS. Það er einhliða tilkynnig SFS að hálfa prósentið sem bættist við þá lágmarksprósentu til skipta þegar útgerð kaupir afla af sjálfri sér, sé fallið úr gildi. Þetta var okkur tilkynnt með tölvupósti þann 6. maí síðastliðinn. Þó er það innritað í samninginn að það gildi meðan samningurinn er í gildi. Og takið eftir, hann gildir þar til nýr samningur er gerður. Um það er hefur aldrei verið nokkur einasti vafi á íslenskum vinnumarkaði,“ segir í færslunni.
Enn fremur kemur fram að ef þessi framgangsmáti eigi að vera á rekstri kjarasamningsins þeirra muni sjómenn áskilja sér rétt til að segja upp þeim hluta samningsins sem þeir eru ekki sáttir við, til að mynda nýsmíðaálaginu. „Eigum við að byrja þar? Það er gersamlega óþolandi að annar aðili samnings geti sagt upp einum lið samningsins án samtals og/eða viðunandi raka.“
Sjómenn verði að fylgjast vel með
Nú verði sjómenn að fylgjast með hvort hálfa prósentið detti út hjá þeim í júní. Tilkynnig SFS um olíuviðmiðsprósentuna í júní sé 77 prósent en eigi að vera 77,5 prósent. Ef það gerist að viðmiðið vegna kaupa á eigin afla verði 77 prósent í júní, telur Sjómannasambandið að komin sé ótvíræð heimild félaganna sem að samningnum standa, að beita sektarákvæði kjarasamningsins sem er 630.046 krónur fyrir hvert brot.
„Umboðsmenn útgerðanna, SFS, segjast ekki hafa umboð til að klára bókanavinnu sem verið hefur í gangi síðan síðasti samningur var gerður vegna þess að kröfur séu nú komnar fram. Það er alveg kristaltært að að ekki verður gerður annar samningur nema þessar bókanir verði kláraðar. Fyrirvari er í kröfugerð okkar um það. Bókanirnar skipta gífurlegu máli fyrir framhaldið.
Nýr formaður SFS hefur látið hafa eftir sér að næsta verkefni sé að klára samninga við sjómenn. Gott og vel við erum til í slaginn ef hugur fylgir máli og SFS hættir að keyra kjarasamninginn áfram á tilkynningum um að hitt og þetta sem þeim er ekki að skapi, sé fallið úr gildi,“ segir í færslunni.
Gleðilegan Sjómannadag. Á þessum tímum Covid-19 er erfitt að halda fjölmennar hátíðir eins og Sjómannadaginn. Sjómönnum...
Posted by Sjómannasamband Íslands on Thursday, June 4, 2020