„Mér sýnist nú ljóst að frumvarpið sem ég lagði fram hafi ekki meirihlutastuðning á Alþingi.“ Þetta skrifar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún fjallar um frumvarp sitt sem átti að heimila ferðaskrifstofum að fresta endurgreiðslum pakkaferða sem falla niður um allt að tólf mánuði með því að gefa út inneignarnótur fyrir andvirði ferðarinnar. Frumvarpið átti að vera afturvirkt til 15. mars og tilgangur þess að var sagður að forða því að ferðaskrifstofur fari í þrot, en á sama tíma væri einnig tryggt að inneignarnóta neytandans félli undir tryggingavernd.
Þórdís segir í stöðuuppfærslunni að hún jafi staðið með frumvarpinu eins og það var lagt fram en það hafi ekki stuðning. „Ég geri því ekki ráð fyrir að þingið afgreiði það.“
Fyrirséð að frumvarpið yrði umdeilt
Hún segir að í málinu vegist á sterk rök á báða bóga, annars vegar um rétt neytenda og hins vegar um það að sá neytendaréttur hafi ekki verið lögfestur með þá stöðu í huga sem nú sé komin upp, algjöra stöðvun ferðaþjónustunnar og yfirvofandi gjaldþrot margra ferðaskrifstofa sem krafðar væru um fullar endurgreiðslur án þess að fá nokkrar tekjur á móti. Það hafi því verið fyrirséð að frumvarpið yrði umdeilt.
Staða ferðaskrifstofa sé mjög mismunandi og vandi þeirra mismikill, en ljóst sé að neytendarétturinn verði einhverjum þeirra ofviða að óbreyttu. „Mögulegt hefði verið að koma til móts við báðar hliðar málsins á kostnað skattgreiðenda, með því að aflétta ekki bara skyldunni um endurgreiðslu í peningum af fyrirtækjunum heldur innleiða samtímis ríkisábyrgð á kröfum neytenda. Niðurstaðan var að gera það ekki,“ skrifar Þórdís.
Þá séu aðstæður að breytast frá því að frumvarpið var samið og lagt fram. „Þá var allt eins útlit fyrir að engin eða nær engin ferðalög yrðu á milli landa fyrr en í haust eða vetur. Nú sjáum við að lönd eru að opna landamæri sín nú þegar eða eftir nokkra daga, miklu fyrr en talið var líklegt fyrir fáeinum vikum. Það þýðir væntanlega að ferðaskrifstofur standa frammi fyrir færri afbókunum en ella og geta líka selt nýjar ferðir fyrr en ella. Þrátt fyrir það er mér vel ljóst að sum þeirra standa frammi fyrir mjög alvarlegri stöðu, þó að staða þeirra sé ólík eins og áður segir.“
Ljóst sé þó að frumvarpið hafi ekki stuðning, sem þýðir að hluti stjórnarþingmanna mun ekki styðja við það. Því gerir Þórdís ekki ráð fyrir að Alþingi muni afgreiða málið.
Fjölmiðlar sögðu frá því í dag að Evrópusambandið hefði „úrskurðað“ að ekki gengi upp að ferðaskrifstofur endurgreiddu...
Posted by Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir on Thursday, June 4, 2020
Hleypur á milljörðum
Neytendasamtökin og ýmsir aðrir hafa gagnrýnt frumvarpið harðlega og sagt það fela í sér að ferðaskrifstofur fái vaxtalaus lán hjá neytendum án þess að þeir hafi nokkuð um það að segja. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði við Kjarnann í maí að þetta virtist vera „default“-stillingin hjá stjórnvöldum, neytendur geti átt sig, en fyrirtækjunum verði að hjálpa. Neytendasamtökin hafa fengið inn á sitt borð stóraukinn fjölda kvartana og ábendinga frá neytendum sem telja á sér brotið eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst.
Breki sagði í Kastljósi skömmu áður að Neytendasamtökin hefðu giskað á að féð sem íslenskir neytendur ættu inni hjá íslenskum ferðaskrifstofum væri á bilinu 1,5-2,5 milljarðar króna. Hann sagðist hafa fulla samúð með fyrirtækjunum, en neytendur ættu ekki að þurfa veita fyrirtækjum vaxtalaus lán til þess að verja eigið fé þeirra í gegnum hremmingarnar. Þeir glími nefnilega líka við lausafjárvanda.