Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar telur stjórnvöld ganga gegn eigin markmiðum um eflingu haf- og umhverfisrannsókna með því að gera sífellda hagræðingarkröfu til Hafró. „Líta verður á hafrannsóknir sem fjárfestingu en ekki eyðslu á fjármagni,“ segir Sigurður í forstjóraávarpi sínu í ársskýrslu stofnunarinnar, sem gefin var út í dag.
Stofnunin þurfti að ráðast í hagræðingaraðgerðir í lok ársins 2019, sem Sigurður segir hafa verið erfiðar. „Hagræðingaraðgerðir sem þessar hafa óneitanlega mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Engum dylst að þjóðhagsleg og vísindaleg verðmæti Hafrannsóknastofnunar byggja á mannauði hennar. Þekking og reynsla starfsfólks stofnunarinnar er ómetanleg og mikilvægt að tryggja að hún viðhaldist,“ segir Sigurður.
Ráðast þurfti í þessar aðgerðir til þess að mæta slæmri fjárhagsstöðu stofnunarinnar sem var tilkomin vegna greiðslufalls Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, en það var sá opinberi sjóður sem Hafrannsóknastofnun sótti mest til. Hafði greiðslufall sjóðsins þau áhrif að verulegur halli varð á rekstri Hafró árin 2018 og 2019.
Samkvæmt ársskýrslunni nam varð 79,4 milljón króna halli á afkomu Hafró á síðasta ári, sem skipti í 25,9 milljóna króna afgang frá rekstri og 105 milljóna króna halla á fjárfestingaheimild, en farið var í töluverðar fjárfestingar vegna flutninga stofnunarinnar í Fornubúðir í Hafnarfirði.
Grunnrannsóknum hættulega lítið sinnt
Sigurður segir að áfram sé unnið með ráðuneyti og ráðherra að því að leysa þann vanda sem varð vegna greiðslufalls Verkefnasjóðsins, en gagnrýnir flötu hagræðingarkröfuna sem beint er að stofnuninni.
Hann segir nánast alla rekstarfjármuni stofnunarinnar fara í grunnvöktun á helstu umhverfisþáttum í hafinu umhverfis Ísland og og vöktun nytjastofna sjávar og í ám og vötnum. Grunnrannsóknum sé á sama tíma „hættulega lítið“ sinnt, sérstaklega á tímum hröðustu umhverfisbreytinga sem við höfum upplifað.
Allra tap ef óvissa er í mælingum
„Nýting sjávarauðlinda byggir á sjálfbærri nýtingu okkar nytjastofna og mælingar á afkastagetu þeirra er nauðsynleg fjárfesting. Ef slakað er á þarna, skapar það óvissu í mælingum sem leiðir til þess að stofnunin getum ekki ráðlagt jafn mikinn afla. Varúðarreglan mælir svo fyrir. Það þýðir beint tap fyrir þjóðfélagið,“ segir Sigurður og bætir við að hagræðingarkrafa upp á tvö prósent á ári sé umtalsverð.„[Í] tilfelli Hafrannsóknastofnunar þýðir það lækkun í fjárveitingu um 90 milljónir á ári sem tekur í, sérstaklega ef áfram er haldið ár eftir ár. Þetta er í beinni andstöðu við auknar áherslur í hafrannsóknum. Þá kalla miklar umhverfisbreytingar, á auknar rannsóknir og kostnað. Langstærsti hluti af rekstrarfé stofnunarinnar er varið í grunnvöktun á umhverfi og fiskistofnum. Stór hluti af rekstrarfé er fastur kostnaður. Til dæmis kostar grunnrekstur skipanna rúman fjórðung af rekstrarfénu. Það er því ekki mikið rými til hagræðingar. Heppilegt væri að Hafrannsóknastofnun þyrfti ekki að sæta hagræðingarkröfu,“ segir forstjórinn.