Alþýðusamband Íslands (ASÍ) krefst þess að grunnatvinnuleysisbætur verði 95 prósent af lágmarkstekjutryggingu í stað 86 prósent eins og nú er. Við það myndu grunnbætur úr atvinnuleysistryggingasjóði hækka úr 289.510 krónum í 318.250 krónur. Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sem eru aldrei hærri en 70 prósent af meðaltali heildarlauna á ákveðnu viðmiðunartímabili, mundi fara úr 456.404 krónum í 529.381 krónur.
ASÍ vill enn fremur að dregið verði úr tekjutengingu þannig að tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu skerði ekki tekjutengdar bætur og að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið úr þremur mánuðum að hámarki í sex mánuði.
Við þær aðstæður sem nú séu uppi á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar séu á næstu misserum sé nauðsynlegt að gera breytingar til að forða fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi og því tekjutapi sem honum fylgir.
Í ljósi þess leggur ASÍ til áðurnefndar breytingar miðað við núgildandi lög og upphæðir atvinnuleysisbóta. „Um er að ræða hóflegar breytingar sem eru einfaldar og hægt er að hrinda strax í framkvæmd en með því fororði þó að heildarendurskoðun laganna fari fram og þá verði fjárhæðir atvinnuleysisbóta og annar stuðningur úr atvinnuleysistryggingasjóði tekinn til gagngerrar skoðunar með það að markmiði að forða fólki frá tekjufalli.“