Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill hætta frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna stöðu hans gagnvart Samherja. Þessi afstaða hafi komið fram á fundi sem fram fór á föstudag. Frá þessu greinir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður nefndarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Hún var ein þriggja þingmanna í nefndinni sem lögðu til að athugunin yrði hafin. Hinir tveir voru Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, og Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingar. Ákvörðun um að hætta frumkvæðisathuguninni er þvert á vilja þremenninganna.
Þórhildur Sunna segir að afstaða meirihlutans hafi komið fram í bókun framsögumanns málsins, Líneik Önnu Sævarsdóttur. Þar hafi meðal annars sagt: „Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engra hagsmuna að gæta af Samherja eða tengdum félögum í skilningi stjórnsýslulaga, hvorki fjárhagslegra né persónulegra. Samkvæmt lögum metur ráðherra hæfi sitt sjálfur og ekkert hefur komið fram um að framkvæmd eða verklag á því mati hafi farið í bága við lög og reglur.[...]Ég tel frekari könnun tilgangslausa og tel ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessa frumkvæðisathugun innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“
Ráðist í athugun eftir opinberun á Samherjamálinu
Nefndin réðst í frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs í ljósi tengsla hans við Samherja í desember í fyrra, eftir að umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Wikileaks hafði leitt í ljós meintar múturgreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu fyrirtækisins í tengslum við veiðar þess í Namibíu.
Ráðherrann hafði sjálfur lýst því yfir í stöðuuppfærslu á Facebook í desember 2017, eftir að gagnrýni kom fram vegna tengsla hans við Samherja og áratugavináttu við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra og einn aðaleiganda fyrirtækisins, að hann myndi meta hæfi sitt í málum sem vörðuðu fyrirtækið „líkt og allir stjórnmálamenn þurfa að gera þegar fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl gætu haft áhrif á afstöðu til einstakra mála“.