Frá byrjun árs 2015 og fram til dagsins í dag hafa þingmenn beint alls 358 fyrirspurnum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem fer meðal annars með málefni allra helstu atvinnuvega íslensks samfélags. Fjöldi þeirra hefur aukist ár frá ári, en árið 2015 voru fyrirspurnirnar 36. Í fyrra voru þær hins vegar 94 og fjöldi þeirra því 160 prósent meiri.
Flestar fyrirspurnirnar komu frá þingmönnum Vinstri grænna, eða alls 25 prósent heildarinnar. Píratar voru sá þingflokkur sem spurði næst mest, en 18 prósent fyrirspurnanna voru frá þeim. Björn Leví Gunnarsson var með flestar fyrirspurnir þingmanna flokksins, en ein af hverjum tíu fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fram á tímabilinu komu frá honum.
Miðflokkurinn, sem hefur einungis setið á þingi frá því síðla árs 2017, ber ábyrgð á 13 prósent af öllum framlögðum fyrirspurnum. Heildarfjöldi fyrirspurna sem þingmenn hans hafa lagt fram til ráðuneytisins á þessu kjörtímabili er 46. Það er einni fyrirspurn færri en þingmenn Pírata hafa lagt fram á sama tíma.
Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um kostnað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum. Í svarinu er ekki tilgreint hver kostnaðurinn við að svara fyrirspurnum sé. Ekki sé haldið sérstaklega utan um um tímafjölda starfsmanna í tengslum við svör við fyrirspurnum þingmanna og því ekki hægt að tilgreina nákvæman kostnað vegna þessa „enda er litið svo á að þessi verkefni séu hluti af þeim verkefnum sem ráðuneytinu beri að sinna.“
Beint að Pírötum sérstaklega
Svarið er tilkomið vegna fyrirspurnar frá Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Brynjar vildi vita hversu margir starfsmenn kæmu að því að undirbúa svör við fyrirspurnum þingmanna og hver áætlaður heildarfjöldi vinnustunda við að væri síðastliðin fimm ár. Hann vildi líka fá sértækari svör varðandi heildarkostnað ráðuneyta við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim. Þá óskaði Brynjar eftir að fá upplýsingar um hvað fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata væru hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra.
Gengið hefur verið út frá því að fyrirspurninni sé sérstaklega beint að Birni Leví, sem hefur lagt fram flestar fyrirspurnir allra þingmanna á undanförnum þingum. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði í kjölfar framlagningar henni, í stöðuuppfærslu á Facebook, eftirfarandi: „Brynjar Níelsson sem lagt hefur fram heilt eitt frumvarp og eina fyrirspurn að eigin frumkvæði, bjó til 10 fyrirspurnir til þess að kvarta yfir því hvernig Björn Leví Gunnarsson vinnur vinnuna sína. Latasti þingmaðurinn kvartar yfir vinnusemi kollega síns. You can´t make this shit up.“
Á Bylgjunni akkúrat núna eru Björn Leví og Brynjar Níelson að tala um fyrirspurnir Björns Leví. Brynjar Níelsson sem...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Wednesday, May 20, 2020
Brynjar tjáði sig um viðbrögð Pírata við fyrirspurninni skömmu síðar á sama vettvangi og skrifaði: „Nú ráfa vinir mínir úr gagnslausa flokknum eins og hauslausar hænur um allt netið til að hefna sín á kallinum, sem vogaði sér að spyrja hvað gagnslausar fyrirspurnir þeirra kostuðu skattgreiðendur. Helst er ég sakaður um leti og hafa verið í tölvunni í þingsalnum. Ef það er leti að trufla ekki vinnandi fólk með þýðingarlausum fyrirspurnum játa ég sök. Sjálfum finnst mér það vera merki um leti að heimta að aðrir afli upplýsinga sem hægt er að sækja sjálfur að mestu. En að fara í tölvuna endrum og eins undir óskiljanlegum og drepleiðinlegum ræðum er að læknisráði til að draga úr líkum á að maður reyni að hengja sig í gardínunni í beinni útsendingu.“
Nú ráfa vinir mínir úr gagnslausa flokknum eins og hauslausar hænur um allt netið til að hefna sín á kallinum, sem...
Posted by Brynjar Níelsson on Friday, May 22, 2020