Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 1.324 milljón króna tapi á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020.
Fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir því að afkoma af rekstri hans yrði jákvæð um 964 milljónir króna. Því var afkoma A-hlutans 2.288 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var enn lengra frá áætlun, sem hafði gert ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 1.586 milljónir króna. Niðurstaða var hins vegar neikvæð afkoma upp á 1.171 milljónir króna.
Þetta kemur fram í rekstraruppgjöri A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 sem birt var í dag. Rekstraruppgjörið var lagt fram í borgarráð í dag í samræmi við tímaáætlun árshlutauppgjöra á árinu 2020.
Hagnaður í fyrra undir áætlun
A-hluti rekstrar borgarinnar skilaði 1.358 milljón króna hagnaði í fyrra, en áætlun þess árs hafði gert ráð fyrir að afkoman yrði jákvæð u,m 3.572 milljónir króna. Því var afkoma A-hlutans 2.214 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var svo umtalsvert lakari, var jákvæð um 930 milljónir króna en áætlanir hafi reiknað með að hún yrði rúmlega fjórir milljarðar króna.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, skilaði umtalsverðum hagnaði í fyrra, og gerði það að verkum að samanlögð rekstrarniðurstaða var jákvæð um 11,2 milljarða króna.
Hann nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Mestu skiptu matsbreytingar fjárfestingaeigna Félagsbústaða, sem skiluðu 3.454 milljóna króna hærri tekjufærslu en fjárhagsáætlun hafði reiknað með. Það þýðir að bókfært virði félagslegra íbúða í eigu dótturfyrirtækis borgarinnar hafi hækkað um þá upphæð umfram það sem vænst var á árinu 2019.