Atvinnuleysi lækkaði mikið í maí og fór úr 17,8 prósent í apríl í þrettán prósent í maí. Þar munar mest um að atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleiðinni lækkaði úr 10,3 prósent í 5,6 prósent. Almenna atvinnuleysið lækkaði einnig lítillega, eða úr 7,5 í 7,4 prósent. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi lækki enn í júní og fari þá í 11,2 prósent.
Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn á Íslandi fyrir maímánuð.
Þar segir að í almenna bótakerfinu hafi verið 16.134 einstaklingar atvinnulausir í lok maímánaðar og 17.213 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 33.347. Meðalbótahlutfall þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli í maí var um 60 prósent. „Alls voru um 21.500 einstaklingar sem eitthvað voru á hlutabótaleiðinni í maí, flestir þeirra í byrjun mánaðarins en fækkaði yfir mánuðinn sem fyrr segir í um 17.200 í lok mánaðarins. Um 5.200 fyrirtæki voru að baki þessum einstaklingum. Atvinnuleysi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli er í mun meira mæli bundið við ferðaþjónustu heldur en þeirra sem eru í almenna bótakerfinu.“
Mun aukast aftur í ágúst
Í skýrslunni kemur fram að gert sé ráð fyrir að atvinnuleysi lækki nokkuð í júní þar sem fólk haldi áfram að afskrá sig jafnt og þétt úr hlutabótaleiðinni nú í júní. „Gert er ráð fyrir að tæpur helmingur þeirra sem eftir voru í hlutabótaleiðinni afskrái sig í júní og atvinnuleysi sem tengist því úrræði lækki því í um 3,8 prósent. Fjöldi nýskráninga í almenna bótakerfinu það sem af er júní bendir til að almennt atvinnuleysi í júní minnki lítið eitt enda er töluvert um afskráningar úr hópi þeirra sem verið hafa á bótum.“