„Það er afar erfitt að réttlæta það að tiltekinn hópur samfélagsins; þeir sem aðallega störfuðu í ferðaiðnaði, færi flestar þær efnahagslegu fórnir sem fylgir COVID-19,“ skrifar Guðrún Johnsen, doktor í hagfræði, í grein sem birtist í Vísbendingu í síðustu viku og bar fyrirsögnina „Handan hengiflugsins“.
Þar segir hún að ljóst sé að krafan standi upp á stjórnvöld, sem tóku ákvarðanir um hömlur á atvinnustarfsemi, að koma þeim heimilum til aðstoðar, sem á þurfi að halda. En hvaða tæki ætla íslensk stjórnvöld að bjóða uppá til að koma fórnarlömbum þessarar kreppu sæmilega klakklaust yfir hið efnahagslega hyldýpi sem blasir við þeim? Eins og sakir standa virðist sumu fólki bjóðast að ganga út á reipi fram til 31. ágúst, sem eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Þegar grunnatvinnuleysisbætur taka við munu margir falla niður í gilið. Öðrum býðst að setjast uppí rólu sem kemur þeim áleiðis yfir gjánna, með því að þiggja atvinnuleysisbætur skv. hlutabótaleiðinni, en sveiflast svo aftur á sama stað, þar sem hið opinbera ætlar einnig að aðstoða fyrirtæki við að segja þessu sama fólki upp, í stað þess að hvetja til þess að ráðningarsambandi sé viðhaldið.“
Engin áform um sæmilega brú
Guðrún segir að eðli þeirrar kreppu sem nú standi yfir, þar sem stærsti atvinnuvegur Íslendinga nánast hvarf á einni nóttu, ásamt nauðsyn þess að viðskipta -og neysluhættir breytist í átt að sjálfbærri efnahagsstarfsemi til lengri tíma, kalli á að atvinnurekendur fjárfesti í nýsköpun og launafólk bæti við sig menntun, til að mæta þörfum annars konar vinnumarkaðar sem mun rísa eftir kreppuna.
Þrátt fyrir langan lista af ýmiskonar opinberum úrræðum sem merkt hafi verið sem björgunarúrræði svo sem að lengja fæðingarorlof, leyfa launþegum að ráðstafa lögbundnum lífeyrissparnaði sínum í eigin húsnæði og ríkisábyrgð á stuðningslánum til rekstrarhæfra fyrirtækja, virðast engin áform vera uppi um að byggja sæmilega trausta brú. Slík brú ætti að sjá „til þess að heildareftirspurn, eignaverð og félagsauður verði fyrir sem minnstum áhrifum, þar sem atvinnurekendum og launþegum er gefið raunhæft svigrúm, 24 mánuði, til að ná jafnvægi að nýju og komast heil á hinn gilsbakkann. Þar sem íslenskir lýðheilsufræðingar eru þegar búnir að vinna stríðið við veiruna er komið að stjórnmálamönnum að vinna friðinn.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.