Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands var 904,3 milljarðar króna þann 31. maí síðastliðinn. Mánuði áður hafði hann verið 970,6 milljarðar króna. Því dróst forðinn saman um alls 66,3 milljarða króna í síðasta mánuði, eða 6,8 prósent.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands um erlenda stöðu hans sem birtar voru í síðustu viku.
Ástæðan er fyrst og síðast mikil styrking krónunnar í maímánuði. Alls átti Seðlabankinn viðskipti fyrir rúmlega fimm milljarða króna í maímánuði. Þar keypti hann gjaldeyri fyrir 2,7 milljarða króna til að vinna gegn frekari styrkingu krónunnar í lok maímánaðar. Seðlabankinn átti einnig umtalsverð viðskipti með eignir utan forða en umfang þeirra fór úr 286 milljónum króna í tæplega 3,3 milljarða króna í síðasta mánuði.
Metinngrip í mars
Íslenska krónan veiktist umtalsvert framan af ári, sérstaklega eftir að COVID-19 faraldurinn og efnahagslegar afleiðingar skullu á af fullum krafti. Staðan leiddi meðal annars til þess að gert var óformlegt samkomulag milli Seðlabanka Íslands og lífeyrissjóða landsins um að þeir myndu ekki breyta krónum í annan gjaldeyri í þrjá mánuði til að hindra enn meiri veikingu. Það samkomulag ætti að renna út um miðjan júnímánuð.
Bankinn hélt áfram að grípa inn í markaðinn í apríl og seldi þá gjaldeyri fyrir alls 7,2 milljarða króna. Alls var hlutur Seðlabankans í veltu á gjaldeyrismarkaði í þeim mánuði 36,3 prósent, sem er langt yfir því sem vanalegt þykir. Til samanburðar var hann 17,5 prósent í mars þrátt fyrir umtalsverð inngrip.
Yfir tíu prósent veiking það sem af er ári
Í lok maí, 26. og 27. þess mánaðar, urðu frekari inngrip í markaðinn. Nú var Seðlabankinn hins vegar að kaupa gjaldeyri til að draga úr umtalsverðri styrkingu krónunnar sem átt hafði sér stað daganna áður. Allt i allt keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir 2,7 milljarða króna í síðasta mánuði og bar ábyrgð á 14,3 prósent af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði í krónum.
Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvað olli hinni skyndilegu, og hröðu styrkingu krónunnar sem jók alþjóðlegt virði króna í vasa íslensks launafólks en fækkaði krónunum sem útflutningsfyrirtæki fengu fyrir gjaldeyrinn sem þau skiptu í krónur. Vert er þó að benda á að 27. maí gaf ríkissjóður Íslands út skuldabréf upp á 500 milljónir evra, eða 76 milljarða króna. Mikil eftirspurn var eftir kaupum á bréfum úr útgáfunni og alls bárust tilboð frá yfir 200 aðilum fyrir 3,4 milljarða evra í hana, eða tæplega sjö sinnum það sem var í boði. Það gaf til kynna að ríkissjóður gæti nokkuð auðveldlega sótt sér meira lánsfjármagn í nánustu framtíð, ef vilji væri til.
Vegna þessarar miklu umframeftirspurnar tókst líka að fá betri kjör en upphaflega var stefnt að, nánar tiltekið 0,3 prósentustigum lægri vexti. Skuldabréfin sem gefin voru út bera 0,625 prósent vexti, eru til sex ára og á ávöxtunarkröfunni 0,667 prósent.
Innan árs hefur íslenska krónan veikst gagnvart evru um 11,7 prósent, en síðastliðinn mánuð hefur hún styrkst um rúmlega fjögur prósent. Þá er meðtalin umtalsverð veiking hennar síðari hluta liðinnar viku. Gagnvart Bandaríkjadal hefur krónan veikst um 10,1 prósent það sem af er ári en styrkst um níu prósent á síðastliðnum mánuði.