Um miðjan apríl síðastliðinn hafði líklegt innkaupaverð íslenskra olíufélaga á bensílítra lækkað um meira en 60 prósent. Sú lækkun, sem var tilkomin vegna hruns á olíuverði á heimsmarkaði, skilaði sér til íslenskra neytenda á þeim tíma, enda var bensínverð nánast það sama 15. apríl og það var um miðjan mars. Hlutur íslensku olíufélaganna í hverjum seldum lítra var hins vegar 78 prósent hærri en hún var í mars.
Síðustu tvo mánuði hefur þessi staða lagast umtalsvert. Samkvæmt nýjustu Bensínvakt Kjarnans, sem unnin er í samvinnu við Bensínverð.is, hefur krónutalan sem skilar sér til olíufélaganna af hverjum seldum lítra farið úr því að vera 63,35 krónur í apríl að að vera 37.94 krónur nú. Hlutdeild olíufélaganna hefur því dregist saman um 40 prósent á tveimur mánuðum.Á sama tíma hefur viðmiðunarverð á bensíni farið úr því að vera 208,9 krónur á lítra í 198 krónur. Verðið hefur lækkað um fimm prósent frá því í apríl.
Innkaupverð skýst upp
Líklegt innkaupaverð á bensíni hefur snarhækkað undanfarna tvo mánuði. Í apríl var 19,92 krónur á lítra, sem er það lægsta sem það hefur nokkru sinni verið. Nú er það 36,54 krónur og hefur því hækkað um 83 prósent frá miðjum mars. Vert er þó að taka fram að hið gríðarlega verðfall sem varð á heimsmarkaði olíu gerði það að verkum að verðið féll um tæplega 61 prósent milli mars og apríl. Það er því að leiðrétta sig að nýju. Ástæðurnar fyrir þessum miklu sveiflum eru, líkt og áður sagði, annars vegar verðfall á heimsmarkaði og hins vegar mikill samdráttur í neyslu vegna COVID-19, meðal annars vegna þess að flugferðir voru að mestu aflagðar.
Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu eða skammtímasveiflna á markaði. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
Hlutur ríkisins í hverjum lítra 62,83 prósent
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 23,43 prósent af verði hans um miðjan júní í sérstakt bensíngjald, 14,55 prósent í almennt bensíngjald og 5,05 prósent í kolefnisgjald. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur.
Samanlagt fór því 124,4 krónur af hverjum seldum lítra til ríkisins, eða 62,83 prósent.
Það er næst hæsti hlutfallslegi hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra. Eina skiptið sem hann hefur verið hærri var í maí 2020, þegar hann var 63,27 prósent.