Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að það samkomulag sem hann hafi gert við Reykjavíkurborg í vetur, sem felur í sér að Reykjavíkurflugvöllur verður í Vatnsmýrinni þangað til að annar kostur verður tilbúin, tryggi að flugvöllurinn verði „ekki lagður af fyrr en eftir einhverja áratugi.“
Þetta kom fram í ræðu Sigurðar Inga á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem fram fór á fimmtudag.
Ekki hefur verið einhugur um hvort að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða verði færð annað. Ráðandi öfl í Reykjavíkurborg hafa lengi viljað að flugvöllurinn verði færður svo hægt sé að byggja í Vatnsmýrinni og þétta þar með höfuðborgina. Um sé að ræða verðmætasta byggingarlandið innan marka hennar sem sé auk þess afar mikilvægt fyrir þróun hennar.
Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir að flugvöllurinn verði þar sem hann er til 2022 en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki í áföngum eftir það ár. Sumarið 2016 komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þyrfti að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjavíkurflugvelli.
Tekin ákvörðun um Hvassahraun fyrir 2024
Umrætt samkomulag, sem Sigurður Ingi vitnaði til í ræðu sinni, var undirritað í lok nóvember í fyrra af Sigurði Inga og Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur. Það felur í sér að ríki og borg hefji samstarf um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni með það að markmiði að fullkanna kosti þess að reisa og reka þar flugvöll til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug.
Í því er gert ráð fyrir að tekin verði ákvörðun fyrir lok árs 2024 um hvort af byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni verði. Ef Hvassahraun reynist ekki vænlegur kostur skuldbundu báðir aðilar að samkomulaginu sig til að taka upp viðræður um málið að nýju.
Sigurður Ingi fór yfir það í ræðu sinni að nú væri unnið að því að byggja nýja flugstöð fyrir innanlandsflug við Reykjavíkurflugvöll, Hann sagði að öllum ætti að vera ljóst að flugvöllurinn væri mikilvægur hluti af skyldum höfuðborgarinnar við þá sem búi úti á landi og þurfa að sækja þjónustu ríkisins sem er á höfuðborgarsvæðinu en hvergi annars staðar.
Mörg samkomulög hafi verið gerð á undanförnum árum en ekkert leyst málið, að hans mati, fyrr en nú.