Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagðist á Alþingi í dag vera í senn ákaflega hryggur en jafnframt reiður vegna þess að í morgun hefði meirihlutinn í fjárlaganefnd tekið „að sér ritstjórnarvald“ á þeim fyrirvara sem hann vildi setja við stuðning hans við fjárauka sem þar hefði verið tekinn út. Jón Steindór er áheyrnarfulltrúi í nefndinni.
„Meirihlutinn gengur þar með þvert á það sem hér hefur tíðkast undanfarið og ég verð að segja það að mér finnst það ansi hart að meirihlutinn þoli ekki fyrirvara við stuðning við málið en ætli sér það virkilega að ritstýra fyrirvara mínum við málið. Þetta er algjörlega fáheyrt, herra forseti, og ekki líðandi,“ sagði hann í ræðu undir liðnum störf þingsins.
Hann sagði þetta vera sérstakt mál. „Í fyrirvaranum sem ekki hlaut náð í nefndinni er talað um að tillögur gangi ekki nógu langt. Þar kemur líka fram að ég kunni að styðja breytingartillögur sem fram koma. Ég held að það sem meirihlutinn vill ekki að sé sagt í nefndarálitinu í mínum fyrirvara séu þessar setningar: „Þær breytingar sem hafa verið gerðar frá upphaflegu frumvarpi eru viðurkenning á málflutningi Viðreisnar varðandi aukin framlög til nýsköpunar en þar er bætt við 200 milljónum til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna svokallaðrar Stuðnings Kríu. Enn fremur eru tillögur um framlög til ferðaábyrgðarsjóðs vegna pakkaferða. Þar er farin leið sem Viðreisn hefur talað fyrir.“
Þarna er ég í raun að hrósa nefndinni fyrir að hlusta á skynsamlegan málflutning sem hún tekur undir en nefndin vill ritstýra þessum setningum út úr fyrirfaranum. Hvaða fíflagangur er þetta?“ spurði hann.
Nefndarmenn verða að geta staðið við álitið
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og nefndarmaður í fjárlaganefnd, tjáði sig um málið undir sama lið og sagði það skipta máli að hér væri um að ræða nefndarálit meirihluta nefndar sem nefndarmenn settu nöfn sín undir. „Eðli málsins samkvæmt hefur þá í fjölflokkameirihluta farið fram umræða um það hvað eigi að standa í því nefndaráliti.“
Hún sagði að áheyrnarfulltrúi í nefndinni, eins og Jón Steindór er í þessu tilfelli, gæti tekið undir meirihlutaálit ef hann kysi svo. „Ég held að hér séum við komin út svolítið ókannaðar lendur þar sem í rauninni þingsköp segja ekki beint fyrir um það hvernig eigi að standa að þessum málum en það er auðvitað svolítið sérstakt þegar nefndarmenn eru með á nefndaráliti en í rauninni með orðum og tillögum sem ganga miklu lengra en þó er verið að gera í nefndarálitinu.“
Steinunn Þóra sagði jafnframt að hún hefði enga skoðun á því hvernig aðrir þingmenn settu sína pólitík fram. „Að sjálfsögðu ekki. Menn standa með orðum sínum – en ég hins vegar vil standa með mínum orðum og ég tel að meirihluti sá sem skrifar undir nefndarálit verði auðvitað að geta staðið á bak við það sem að í því stendur. Mér finnst það mikilvægt að við fylgjum eftir þeim reglum sem hér eru varðandi þingstyrk, til að mynda, sem fjalla um það að áheyrnarfulltrúi getur lýst sig samþykkan – ef hann svo kýs – nefndaráliti meirihluta.
Venjan hefur verið sú að þegar þingmenn hafa haft sérstaka skoðun þá skili þeir inn meirihlutaáliti. Það var ekki hægt í þessu tilviki og í mínum huga snýst þetta um, það er að segja formið, að áheyrnarfulltrúi getur lýst sig samþykkan nefndaráliti ef hann kýs svo,“ sagði hún að lokum.