„Enn og aftur getur ríkið ekki samið við hjúkrunarfræðinga, aftur á að fara í gerðardóm. Fyrirsjáanlegt. Engir samningar við lögreglumenn svo mikið sem í augsýn. Fyrirsjáanlegt. Þingmenn fá hækkun. Fyrirsjáanlegt. Ný stjórnarskrá pikkföst í skúffu. Fyrirsjáanlegt. Pólitísk afskipti af ráðningum. Fyrirsjáanlegt.“
Þannig hófst fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Vísaði Björn Leví í leiðara í Stundinni þar sem farið er yfir ýmis spillingarmál undanfarinnar ára. „Á þeim lista er meðal annars Samherjamálið, borgarfulltrúinn og peningaþvættið, Klausturmálið og sendiherrakapallinn, Landsréttarmálið, Glitnisskjölin og hagsmunaáreksturinn, Lögbannsmálið, akstursgreiðslurnar og dagpeningarnir, Panamaskjölin og ráðherrar í skattaskjólum, Orka Energy og samningar í Kína, hæfnisnefndin og Baldur Guðlaugsson, Landsbankinn og Borgun og Lekamálið.
Þetta er ekki tæmandi upptalning á spillingarmálum undanfarinna ára. Ef eitthvað var fyrirsjáanlegt við ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn þá eru það spillingarmál. Alveg eins og það er fyrirsjáanlegt að samningsvilji við starfsstéttir hins opinbera er lítill sem enginn.“
Björn Leví spurði Katrínu hvort hægt væri að búast við öðru en því sem hefði verið fyrirsjáanlegt í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. „Af hverju er svona eftirsóknarvert að fara í valdasamstarf með Sjálfstæðisflokknum?“ spurði hann.
„Ég horfi bara á þann árangur sem næst í ríkisstjórnarsamstarfi“
Katrín svaraði og mótmælti því að engir kjarasamningar næðust í tíð þessarar ríkisstjórnar. „Ég verð að byrja á því að leiðrétta háttvirtan þingmann. Það er búið að semja við um það bil 80 prósent ríkisstarfsmanna. Það er búið að ná fram mjög mikilvægum breytingum sem meðal annars var skrifað undir í gærkvöldi af hálfu hjúkrunarfræðinga sem snýst um að gerbreyta vaktavinnufyrirkomulagi ríkisins sem varðar einmitt þær kvennastéttir sem þar starfa. Stærsta breytingin sem hefur orðið á kjörum þessara hópa í áratugi. Var það fyrirsjáanlegt? Alveg örugglega ekki af hálfu háttvirts þingmanns. Er það gott? Já, það er frábært. Og það mun breyta kjörum þeirra sem starfa á vöktum hjá hinu opinbera og það er gott – og það er gott fyrir kvennastéttir,“ sagði hún.
Katrín fjallaði jafnframt um launamál þingmanna í svari sínu. „Já, rifjum það upp. Bíddu, það var þessi ríkisstjórn sem lagði niður kjararáð. Það var nú eitt af því sem flokkur háttvirts þingmanns var einhvern tímann á að þyrfti að gerast og að það væri mikilvægt að koma á nýju og gagnsæju kerfi um launamál æðstu stjórnenda hjá ríkinu. En nú er komin einhver önnur plata á. Hún er kannski ekki alveg fyrirsjáanleg þegar ég hugsa um málflutning háttvirts þingmanns – fyrri málflutning það er að segja.
Það sem við gerðum var að breyta þessu fyrirkomulagi og einmitt koma á gagnsæju fyrirkomulagi í anda þess sem gerist annars staðar á Norðurlöndum til þess að tryggja það að umdeildir úrskurðir kjararáðs endurtaki sig ekki. Að vísu höfum við frestað þeirri hækkun sem átti að vera 1. júlí en var það fyrirsjáanlegt? Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað háttvirtum þingmanni finnst fyrirsjáanlegt. Var það fyrirsjáanlegt að við værum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi? Nei, það held ég ekki.“
Hún benti á að þetta væri í fyrsta sinn sem hún væri í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. „Ég horfi bara á þann árangur sem næst í ríkisstjórnarsamstarfi. Tel ég okkur hafa náð árangri? Ég hef nefnt tvö dæmi hér. Ég er nokkuð viss um að háttvirtur þingmaður hefði séð hvorugt þeirra fyrir.“
Spurði sömu spurningarinnar aftur
Björn Leví kom í pontu í annað sinn og sagði að spurningunni hefði ekki verið svarað. „Ég spyr hana aftur: Af hverju er svona eftirsóknarvert að fara í valdasamstarf með Sjálfstæðisflokknum?“
Katrín svaraði og sagði að það að fara í ríkisstjórn – sama með hverjum – snerist um það að ná árangri í þeim málum sem stjórnmálamenn vildu fara í. „Ég legg mikið upp úr því að vera í stjórnmálum til að ná árangri í mikilvægum málum fyrir samfélagið og ég mæli minn árangur út frá því – hvaða árangur erum við að ná fyrir samfélagið.“