Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, verður eini formaður stjórnmálaflokks sem á fulltrúa á Alþingi sem mun flytja ræðu þegar almennar stjórnmálaumræður, svokallaðar eldhúsdagsumræður, fara fram á Alþingi í kvöld. Umræðurnar hefjast klukkan 19:30 og verða sendar beint út í útvarpi og sjónvarpi RÚV.
Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir. Hver þingflokkur má velja ræðumann til að tala fyrst í átta mínútur en hinir tveir síðari fá fimm mínútur hver.
Miðflokkurinn talar fyrst. Ræðumenn hans í kvöld verða Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Páll Jónsson og Karl Gauti Hjaltason.
Fyrir Sjálfstæðisflokkinn tala varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Vilhjálmur Árnason. Samfylkingin teflir fram Oddnýju Harðardóttur, Ágústi Ólafi Ágústssyni og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talar fyrst fyrir Vinstri græn. Á eftir henni koma Ari Trausti Guðmundsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Hjá Viðreisn verða ræðumenn Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Eini flokkurinn sem teflir fram formanni sínum á meðal ræðumanna er Flokkur fólksins. Hann á raunar ekki annarra kosta völ, vilji flokkurinn taka þátt í umræðunum, enda þingmenn hans sem stendur einungis tveir. Inga Sæland, formaður flokksins, mun tala tvívegis og á milli ræðna hennar tala hinn þingmaðurinn, Guðmundur Ingi Kristinsson.
Andrés Ingi Jónsson, sem sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í lok nóvember í fyrra, og starfar utan þingflokka, fær að tala einu sinni, í lok fyrstu umferðar.
Á vef Alþingis kemur fram að í íslensku alfræðiorðabókinni sé sagt að heitið á eldhúsdagsumræðum vísi til þess að á slíkum geri ríkisstjórnin hreint fyrir sínum dyrum. Einungis einn ráðherra ríkisstjórnarinnar ætlar að tala í kvöld, Þórdís Kolbrún.