Hlutafé í Þórsmörk ehf., félaginu sem á útgáfufélag Morgunblaðsins, var aukið um 300 milljónir króna í síðasta mánuði. Hækkunin á hlutafé félagsins, sem fór út 606,6 milljónum í 906,6 milljónir, var öll greidd með peningum.
Þetta kemur fram í tilkynningu um hækkun á hlutafé Þórsmerkur sem barst fyrirtækjaskrá 19. maí síðastliðinn. Eina eign Þórsmerkur er Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og K100. Þórsmörk hefur ekki birt ársreikning sinn vegna ársins 2019, enda frestur til slíks út ágúst næstkomandi. Því er rekstrarniðurstaða þess árs ekki opinber sem stendur.
Mikið tap hefur verið á rekstri Árvakurs á undanförnum árum. Frá því að nýir eigendur tóku yfir félagið á árinu 2009 og fram til loka árs 2018 tapaði félagið samtals um 2,2 milljörðum króna. Tap Árvakurs árið 2018 var 415 milljónir króna og jókst mikið frá árinu á undan, þegar það var 284 milljónir króna.
Hlutafé aukið um hálfan milljarð á rúmu ári
Hlutafé Í Þórsmörk var síðast aukið í byrjun árs 2019, og þá um 200 milljónir króna. Dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga (KS), Íslenskar sjávarafurðir ehf., og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirra 200 milljóna króna sem settar voru inn í rekstur Árvakurs. Alls lögðu þessar tvær blokkir til 160 milljónir króna af milljónunum 200. Þær 40 milljónir króna sem upp á vantaði dreifðust á nokkra smærri hluthafa en enginn nýr hluthafi bættist í hópinn við hlutafjáraukninguna.
Á sama tíma var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir nú til ársloka 2024.
Ekki kemur fram í gögnunum sem skilað var inn til fyrirtækjaskrár hver lagði nýja hlutaféð til og upplýsingar um eignarhald á Þórsmörk hefur ekki verið uppfært á vef fjölmiðlanefndar frá 28. maí 2019.
Afskrifuðu milljarð
Frá því að nýir eigendur tóku við Árvakri árið 2009 hafa þeir lagt félaginu til rúmlega 1,9 milljarð króna. Þar af nemur framlagt hlutafé KS að minnsta kosti um 324 milljónum króna og framlagt hlutafé tveggja félaga sem tengjast Ísfélaginu um 484 milljónum króna. Annað þeirra er félagið Hlynur A en hitt er Ísfélagið sjálft.
Íslenskar sjávarafurðir bókfærðu virði hlutar síns í Þórsmörk á 378,1 milljónir króna í nýbirtum ársreikningi þeirra fyrir árið 2019. Þar kom einnig fram að Þórsmörk skuldaði félaginu 68 milljónir króna um síðustu áramót. Sú skuld er á gjalddaga í ár, 2020.
Í maí 2019 var ákveðið að lækka hlutafé í Þórsmörk um einn milljarð króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var það gert til jöfnunar á tapi.
Við það lækkaði hlutafé Þórsmerkur úr 1,6 milljarði króna í 606,6 milljónir króna. Það þýddi að eigendur félagsins hafa afskrifað milljarð af því fjármagni sem þeir settu inn í félagið. Síðan þá hefur, líkt og áður sagði, hlutaféð verið aukið um 300 milljónir króna.
Eignarhald Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, er eftirfarandi samkvæmt heimasíðu fjölmiðlanefndar:
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 20,05 prósent
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 20,00 prósent
- Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,45 prósent
- Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson, 13,43 prósent
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 12,37 prósent
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14 prósent
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson, 3,59 prósent
- Stálskip ehf., forsv.maður Halldór Kristjánsson, 3,08 prósent
- Brekkuhvarf ehf., forsv.maður Ásgeir Bolli Kristinsson, 2,05 prósent
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,54 prósent
- Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., forsv.maður Einar Valur Kristjánsson, 1,30 prósent