Þingmenn Miðflokksins hættu að ræða um samgönguáætlanir Alþingis í hádeginu í dag, eftir að hafa dögum saman haldið uppi umræðum, aðallega sín á milli, um ókosti Borgarlínu og aðra þætti í samgönguáætlununum sem flokkurinn er ekki ánægður með.
„Enn er margt órætt í þessu máli, en í trausti þess að vilji sé til að ráðast í ákveðnar úrbætur höfum við ákveðið að sýna viðleitni með því að halda aðeins fjórar ræður í viðbót, þótt það þýði að margar góðar ræður verði aldrei fluttar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í upphafi ræðu sinnar í dag.
Síðan stigu þeir Karl Gauti Hjaltason, Birgir Þórarinsson og Bergþór Ólason í pontu og fluttu ræður þar sem þeir fundu borgarlínuverkefninu allt til foráttu, eins og þeir og aðrir þingmenn flokksins hafa gert í ræðum sínum frá því í síðustu viku.
Alls hafa málin tvö, þingsályktunartillögur um fimm og tíu ára samgönguáætlanir Alþingis verið rædd í um það bil 43 klukkustundir í annarri umræðu á Alþingi, en atkvæðagreiðslum um málin var frestað.
Borgarlína áfram til umræðu
Samgöngumálin víkja þó ekki af dagskrá þingsins, því skömmu fyrir kl. 13 hófust umræður um frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um heimild til þess að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, sem yrði í sameign ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Óljóst er hvernig umræðu um það mál mun vinda fram, en ljóst er að þingmenn Miðflokksins munu ekki láta sig vanta í umræðuna, sem snýst í grunninn um Borgarlínu.