Niðurstöður úr mótefnamælingum, sem fjölmargir Íslendingar hafa farið í síðustu vikur, verða vonandi birtar hverjum og einum á næstu 1-2 vikum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði frá því á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag að margir biðu óþreyjufullir eftir niðurstöðunum en að málið hefði tafist hjá Íslenskri erfðagreiningu einkum vegna vinnunnar við skimun á landamærum sem hófst þann 15. júní.
Mótefnamælingar eru einnig gerðar meðal ferðamanna sem hingað koma og greinast með veiruna. Þórólfur benti á fundinum á að þeir væru ýmist með nýja sýkingu eða gamla. „Ný sýking þýðir að viðkomandi er smitandi en gömul að viðkomandi hefur fengið sýkingu fyrir vikum eða mánuðum en leyfar af veirunni finnast ennþá hjá einstaklingnum en hann er þá með mótefni og því ekki smitandi,“ sagði Þórólfur.
Einnig stendur til að sögn Þórólfs að útbúa vottorð sem fólk sem hefur fengið sjúkdóminn og hefur mælst með mótefni geti nálgast í gegnum Heilsuveru.is.
Rúmlega tíu þúsund farþegar hafa komið til landsins síðan að skimun við landamæri hófst fyrir rúmri viku. Þrettán hafa greinst með veiruna en aðeins tveir með virk smit. Aðrir hafa verið með gamalt smit og því ekki smitandi. Þá sagði hann ekkert innanlandssmit hafa greinst frá ferðamönnum. „Við getum verið ánægð með þá stöðu.“
Þórólfur sagði að núverandi fyrirkomulag hefði því reynst vel hingað til og gæfi innsýn í þá smithættu sem er fyrir hendi. Sagðist hann ætla að mælast til þess við ráðherra að skimanir á landmærum haldi áfram – að minnsta kosti út júlí til að sjá betur í hverju áhættan er fólgin. Í kjölfarið verður hugsanlega hægt að breyta um áherslur í skimuninni en að það sé ekki tímabært að sinni.
Síðasta skref í afléttingum samkomutakmarkana var tekið þann 15. Júní og leggur Þórólfur til að það næsta verði tekið fjórum vikum síðar eða þann 13. Júlí. Mun hann þá leggja til að í stað 500 megi 2.000 manns koma saman. Hingað til hafa skrefin verið tekin með um þriggja vikna millibili en Þórólfur segir að nú sé „svo margt í gangi“, ferðamenn farnir að koma og fleira og því borgi sig að fara aðeins hægar í sakirnar.
Vínveitingastöðum er enn gert að loka klukkan 23 og sagði Þórólfur nú til skoðunar að rýmka þann tíma. Verður það auglýst síðar.
Á fundinum sagði Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, að kostnaður við landamæraskimun væri „örugglega mikill“ en að ávinningurinn væri það sömu leiðis. Hann sagði vinnu í gangi í heilbrigðisráðuneytinu við að leggja mat á kostnaðinn svo hægt verði að byggja undir ákvörðun um gjaldtöku við skimun sem stefnt er að að hefjist um mánaðamótin. „Eitt af því sem augljóslega hefur áhrif er að því fleiri sýni sem verða tekin því minni verður kostnaðurinn á hvert sýni.“
Þórólfur ítrekaði á fundinum að áfram væri nauðsynlegt að ástunda persónubundnar sóttvarnir eins og handþvott. „Það er greinilegt að fólk er orðið mjög frjálslegt í fasi og framkomu hvað varðar sýkingarvarnir og ég vil hvetja alla til að gæta að sér og passa sig því það er það sem skilar okkur mestum árangri.“