Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjustu könnun MMR, með 24,3 prósent fylgi. Hann bætir við sig við sig 1,6 prósentustigi milli kannana. Samfylkingin er sá flokkur sem bætir mestu fylgi við sig milli kannana, eða 3,9 prósentustigum. Alls segjast 16,3 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn. Það er fylgisaukning upp á tæplega þriðjung frá síðustu könnun MMR.
Píratar bæta líka við sig fylgi og nú segjast 13,2 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það er 1,8 prósentustigi meira fylgi en í síðustu könnun fyrirtækisins.
Viðreisn dalar lítillega og mælist nú með tíu prósent fylgi. Allir þessir þrír flokkar: Samfylkingin, Píratar og Viðreisn eru þó að mælast með meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum, þegar þeir fengu samtals 28 prósent atkvæða. Sameiginlegt fylgi þeirra í dag er 39,5 prósent. Það er litlu minna fylgi en stjórnarflokkarnir þrír eru sameiginlega að mælast með, en 41,1 prósent kjósenda styðja þá sem stendur.
Framsókn ekki minni á kjörtímabilinu
Framsóknarflokkurinn mældist með 6,4 prósent fylgi í könnun MMR í lok maí. Fylgi Framsóknarflokksins þeirri könnun var enn fremur það minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á þessu kjörtímabili. Það met hefur nú verið bætt þar sem fylgið mælist 6,1 prósent.
Flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, Vinstri græn, mælast nú með 10,7 prósent stuðning. Yrði það niðurstaða kosninga myndu Vinstri græn tapa rúmlega þriðjungi atkvæða sinna frá síðustu kosningum.
Flokkur fólksins er á hægri uppleið í nýjustu könnun MMR og þau 5,4 prósent kjósenda sem segjast styðja flokkinn myndu að öllum líkindum skila honum aftur inn á þing. Sömu sögu er ekki að segja af Sósíalistaflokki Íslands, sem mælist með 3,5 prósent fylgi.
2,4 prósent kjósenda nefndu aðra valkosti en þá níu sem spurt er sérstaklega um í könnunum MMR.
Alls segjast 46,8 prósent landsmanna styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem er minnsti stuðningur sem hún hefur mælst með eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á Ísland af fullum krafti. Vert er að taka fram að stuðningur hennar er þó enn mun meiri en hann var fyrir faraldurinn, þegar undir 40 prósent landsmanna studdi ríkisstjórnina.
Könnunin var framkvæmd 16. -19. júní 2020 og var heildarfjöldi svarenda 1.045 einstaklingar, 18 ára og eldri.