Samdráttur á landsframleiðslu á Íslandi verður 8,4 prósent í ár samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var í morgun. Gangi spáin eftir er um að ræða mesta samdrátt sem átt hefur sér stað frá því að lýðveldið Ísland var stofnað árið 1944.
Í spánni segir að slæmar horfur í ár megi rekja til veirufaraldursins sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Hann hafi meðal annars. lamað samgöngur á milli landa og þar af leiðandi haft mikil áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi. Hagstofan reiknar með „snörpum viðsnúningi“ á næsta ári og að vöxtur landsframleiðslunnar verði 4,9 prósent. Næstu ár eftir það er svo gert ráð fyrir hagvexti á bilinu 2,5-2,9 prósent. Horfur eru á að þjóðarútgjöld dragist saman um 4,4 prósent í ár en að þau aukist um 4,3 prósent árið 2021.
Gangi spáin eftir verður kreppan á Íslandi mun dýpri en að meðaltali hjá ríkjum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Samkvæmt nýlegri spá hennar er áætlað samdráttur á meðal aðildarríkja verði sex prósent á þessu ári. Þá er búist við að hagkerfi heimsins taki hressilega við sér á næsta ári og að hagvöxtur verði 5,2 prósent. Gert er ráð fyrir að samdráttur í helstu viðskiptaríkjum Íslands verði meiri en OECD gerir ráð fyrir á heimsvísu eða 6,7 prósent.
Útlit er fyrir að útflutningur dragist saman um rúm 30 prósent í ár en búist er við bata á næsta ári og rúmlega 19 prósent vexti.
Í spánni er þó sérstaklega tekið fram að veruleg óvissa ríki um helstu forsendur vegna faraldursins. „Bakslag í baráttunni við faraldurinn gæti dýpkað samdráttinn í ár og dregið úr efnahagsbata næstu ára. Áhrif á útflutningsatvinnuvegi gætu einnig reynst verri vegna þróunar á mörkuðum erlendis. Þá er einnig talsverð óvissa um umfang efnahagsaðgerða stjórnvalda og áhrif þeirra á fjármál hins opinbera.“
Samdráttur í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis
Í þjóðhagsspánni segir að veruleg óvissa ríki um atvinnuvegafjárfestingu á árinu. „Faraldurinn raskar án efa starfsemi fyrirtækja í ár sem hefur bein áhrif á fjárfestingaráform þeirra og á það sérstaklega við um fyrirtæki í ferðaþjónustu. Í ár er reiknað með að atvinnuvegafjárfesting dragist saman um 15,5 prósent frá fyrra ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir 11 prósent aukningu á ný og hóflegum vexti eftir það.“
Þá hafi hægt á íbúðafjárfestingu eftir vöxt síðustu ára. Útlit sé fyrir 9,5 prósent samdrátt í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis í ár og 3,9 prósent á því næsta. „Horfur eru á umtalsverðri aukningu opinberrar fjárfestingar í ár og að vöxturinn muni nema 21,7 prósent sem má rekja til viðbragða stjórnvalda við faraldrinum. Áætlað er að flýta opinberum framkvæmdum og fjárfesta í tækniinnviðum.“
Horfur eru á, samkvæmt spánni, að verðbólga haldist við 2,5 prósenta verðbólgumarkmið næstu ár. Þrátt fyrir
gengislækkun í ár hafi hrávöruverð lækkað á móti og slaki í hagkerfinu dregið úr
hvata til verðhækkana.
Fréttin verður uppfærð.