„Þá féll spilaborgin alveg“

Á hjúkrunarheimilinu Bergi sjást lítil ummerki um kórónuveiruna sem tuttugu íbúar og starfsmenn sýktust af. Þau sjást helst á máðum gólfum eftir stöðuga þvotta. „Þetta var náttúrlega alvarlegt. Það dó fólk og það var mikil sorg og hræðsla.“

Gylfi Ólafsson á skrifstofu  sinni á Ísafirði.
Gylfi Ólafsson á skrifstofu sinni á Ísafirði.
Auglýsing

„Þetta var náttúrlega alvarlegt. Fólk dó og það var mikil sorg og hræðsla. Hvaða afleiðingar það mun hafa á líðan fólks til langs tíma er enn óvíst. En núna er bjart yfir öllum, bæði starfsfólki og íbúum. Svona ástand getur þjappað fólki saman.“

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, heimsótti hjúkrunarheimilið Berg á Bolungarvík í vikunni. Heimilið þar sem kom upp hópsýking af kórónuveirunni. Sjö íbúar af ellefu sýktust og tveir létust. Þrettán starfsmenn sýktust, þar af tveir bakverðir sem komu til aðstoðar. Nítján starfsmenn þurftu að fara í sóttkví, þar af fimm bakverðir. Veiran hafði því þau áhrif að 32 sem ýmist unnu eða bjuggu á heimilinu sýktust eða þurftu að fara í sóttkví.

Ummerki um kórónuveiruna á Bergi eru nú vart sjáanleg. Þau sjást helst í því að veggir og gólf hafa látið á sjá eftir ítrekuð þrif með sterkum sótthreinsandi efnum og límböndum sem notuð voru til að hólfa húsnæðið niður.

Auglýsing

Flestir sýktust í upphafi apríl og tveimur vikum seinna sýktust tveir starfsmenn til viðbótar. 

„Starfsmennirnir veiktust ekki mjög alvarlega en hins vegar þá hafa veikindin hjá mörgum þeirra verið langvinn,“ segir Gylfi. „Fólk er enn að kvarta yfir eyrnaverk, skertu starfsþreki, höfuðverk eða jafnvel gleymsku.“ Enginn er þó enn í veikindaleyfi.

Gylfa segist hafa brugðið þegar ljóst var að COVID-19 hefði greinst meðal fólksins á Bergi. Vegna sóttvarnaráðstafana þurfti hann sjálfur að loka sig af inni á skrifstofu og fá fréttir af gangi mála frá öðrum.

Hann segir að á miklu hafi gengið á starfsstöð hans á Ísafirði á þessum tíma. Það var ekki aðeins Berg sem var undir heldur umfangsmikil sýnataka vegna hópsýkinga í umdæminu, smitrakning, skipulagning á sóttkví fjölda fólks auk samskipta við fjölmiðla og þar fram eftir götunum. „Svo bættist við ófærð framan af,“ rifjar Gylfi upp. 

Lífið er að komast í samt horf á hjúkrunarheimilinu Bergi eftir áfall vetrarins. Mynd: Bolungarvik.is

31 starfsmaður til viðbótar við þá sem fyrir voru kom til starfa á Bergi á því tímabili sem ástandið var hvað verst. „Til starfa kom fólk úr bakvarðasveitinni en einnig fólk sem hafði ætlað að vera í fríi, sumarstarfsmenn komu fyrr en til stóð, nemar sem voru í háskólum erlendis komu heim og lögðu sitt af mörkum og einnig var flutt til fólk af öðrum deildum stofnunarinnar. Allt þetta fólk var kallað til.“

Þegar fyrsta smitið greindist hjá íbúa á Bergi hafði heimsóknarbann staðið í nokkrar vikur. Var það rakið til starfsmanns. Sá hafði verið einkennalaus og engar vísbendingar haft um veikindi sín. 

Mikil vanlíðan

Á þessum tíma var búið að skipta starfsmönnum niður í teymi svo að ef upp kæmi smit væri hægt að setja allt teymið í sóttkví og lágmarka þannig frekara smit. En á Bergi barst smit snemma í íbúa og áður en það var greint höfðu fleiri, bæði aðrir íbúar og aðrir starfsmenn, smitast. „Þá féll spilaborgin alveg,“ rifjar Gylfi upp. Hann segir að starfsmaðurinn sem óaðvitandi bar smitið inn á heimilið hafi glímt við mikla vanlíðan í kjölfarið. Sömu sögu sé að segja um marga aðra starfsmenn. Þeir þurftu margir að fara heim í einangrun eða sóttkví og fannst þeir því ekki geta komið að gagni þegar mest þurfti á að halda. Þeir sem veiktust voru svo eins og aðrir sem fengu þennan nýjan sjúkdóm í mikilli óvissu með hvað koma skyldi. Og hver eftirköstin yrðu – líkt og nú er farið að koma í ljós.

Gylfi segir allt hafa verið reynt til að halda utan um starfsmannahópinn og hlúa að honum við þessar erfiðu aðstæður. Rauði krossinn kom þar m.a. til skjalanna og bauð áfallahjálp. „Við lögum mikið upp úr því að hringja í starfsmenn og heyra í þeim hljóðið og einnig í aðstandendur íbúanna og heyra hvernig þeir hefðu það og halda þeim upplýstum.“

Gæti haft áhrif til framtíðar

Á Bergi er lífið að komast í samt horf. Heimsóknarbanni hefur verið aflétt og þeir starfsmenn sem fóru í veikindaleyfi eru komnir til baka. Byrjað var að taka við nýjum íbúum í lok maí. 

„Þetta var náttúrlega alvarlegt,“ segir Gylfi. „Fólk dó og það var mikil sorg og hræðsla. Hvaða afleiðingar það mun hafa til langs tíma er enn óvíst. Það er enn svo stutt síðan þetta gekk yfir. En því miður þá er ekki útilokað að þetta tímabil og allt sem því fylgdi eigi eftir að hafa áhrif á andlega heilsu einhverra síðar. Með því þarf að fylgjast vel.“

Gylfi vonar að áfallið muni ekki skilja eftir sig djúp sár til lengri tíma. „Mér fannst svakalega bjart yfir öllum,“ segir Gylfi. „En í fyrradag var reyndar sérstakur dagur, Guðni [Th. Jóhannesson] forseti kom í heimsókn og því hátíðarbragur á öllu.“

Hefði getað farið mun verr

Þegar Gylfi er beðinn að líta í baksýnisspegilinn er honum efst í huga að ekki hafi farið verr. Hann bendir á að erlendis hafi veiran víða valdið hörmungum á hjúkrunarheimilum. „Dæmin að utan sýna að þegar smit hafa komið upp á hjúkrunarheimilum hafi reynst mjög erfitt að ráða við ástandið. Dánartíðnin hefur oft verið mjög há. Við misstum tvo af þeim sjö íbúum sem sýktust.“

Það sem hafi komið í veg fyrir að ekki fór enn verr má að sögn Gylfa rekja til þess að leiðbeiningar um sóttkví og aðrar sóttvarnir voru til staðar og hlífðarfatnaður til taks þegar á þurfti að halda. Þá hafi heilbrigðisstofnanirnar staðið vel saman. Nokkrir þeirra sem veiktust alvarlega af COVID-19 í umdæminu voru sendir til aðhlynningar á Akureyri og aðrir suður til Reykjavíkur. Svo hafi fólk komið alls staðar að af landinu til aðstoðar í gegnum bakvarðasveitina. Gylfi segir að her mannanna hafi „gert og græjað“ allt sem til þurfti. „Ég var stundum spurður hvort að við réðum við álagið og þá spurði ég á móti: Hvað meinarðu með við? Því þetta voru svo margir sem gengu hver undir annars hönd.“

Alls hafa 97 greinst með veiruna á Vestfjörðum frá upphafi faraldursins. Gylfi segist vita til þess að það séu fleiri en starfsmenn Bergs sem hafi fundið fyrir langvinnum einkennum vegna sjúkdómsins. „Þessi einkenni virðast sitja í mörgum, meðal annars þetta slen. Það vantar dálítinn vind í fólk sem ekki er hægt að vinna upp með miklum fjallgöngum heldur verður fólk bara að gefa sér tíma til að jafna sig.“

Samfélagið að ná vopnum sínum

Fyrir utan það virðist honum samfélagið vera búið að ná vopnum sínum að mestu fyrir utan þá erfiðu stöðu sem upp er komin í ferðaþjónustunni. Skemmtiferðaskipin hafa flutt tugþúsundir farþega til svæðisins undanfarin ár en ekki er von á slíku skipi í sumar. 

Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er haldið utan um sérstakan „COVID-reikning“ í bókhaldinu. „Við væntum þess að ríkið greiði hann þegar rykið sest,“ segir Gylfi. Reikningurinn er vegna aðfanga og launa starfsmanna og hljóðar upp á um hundrað milljónir króna. Reikningurinn hefur verið sendur – en er enn ógreiddur. „En ég á ekki von á öðru en að það verði gert.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til að bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira úr sama flokkiViðtal