Ný þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, sem birt var á föstudag, gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði að jafnaði 8,2 prósent á árinu 2020. Gangi spáin eftir er um að ræða mesta atvinnuleysi sem nokkru seinni hefur mælst innan árs í lýðveldissögunni. Fyrra metið var sett árið 2010, í kjölfar banka- og efnahagshrunsins sem varð á árunum 2008 og 2009, þegar 7,6 prósent landsmanna var án atvinnu að meðaltali.
Atvinnuleysið verður áfram umtalsvert í sögulegu samhengi árin 2021 og 2022 samkvæmt spánni. Á næsta ári býst Hagstofan við því að 6,8 prósent vinnumarkaðarins verði að jafnaði án atvinnu og árið eftir 6,2 prósent. Það er meira atvinnuleysi en hefur mælst á Íslandi frá árinu 2012, þegar hagkerfið fór að taka að fullu við sér eftir bankahrunið.
Miðað við þjóðhagsspánna má gera ráð fyrir að staða mála á íslenskum vinnumarkaði, hvað varðar atvinnuleysi, verði sambærileg því á tímabilinu 2020 til 2022 og hún var á árunum 2009 til 2011. Atvinnuleysi á árunum 2016 og út síðasta ár mældist á bilinu 2,7 til 3,5 prósent.
Yfir sjö þúsund sagt upp í hópuppsögnum
Alls mældist heildaratvinnuleysi í maí þrettán prósent, en hafði verið 17,8 prósent í apríl.
Stjórnvöld hafa kynnt til leiks ýmis úrræði til að takast á við versnandi atvinnuhorfur. Þeirra fyrirferðamestar hafa verið hin svokallaða hlutabótaleið og styrkir til fyrirtækja til að hjálpa þeim við að greiða fólki uppsagnarfresti.
Í þjóðhagsspá Hagstofunnar segir að flestir þeirra sem nýttu sér hlutabótaúrræðið hafi verið starfandi í ferðaþjónustu, eða um 37 prósent, og 21 prósent í verslun. Alls hafi um 7.100 manns verið sagt upp í hópuppsögnum frá því í mars, þar af um tvö þúsund hjá Icelandair, í stærstu hópuppsögninni sem tilkynnt hefur verið fram til þessa.
Gert ráð fyrir yfir 60 milljarða kostnaði við tvö úrræði
Stjórnvöld ákváðu að framlengja hlutabótaleiðina út ágúst næstkomandi, en þó með breyttu sniði. Þær breytingar sem gerðar voru fela meðal annars í sér að í júlí og ágúst verða hámarksgreiðslur úr opinberum sjóðum 50 prósent af greiddum launum í stað 75 prósent. Auk þess mega þau fyrirtæki sem nýta sér leiðina ekki ætla að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óumsamda bónusa eða borga helstu stjórnendum yfir þrjár milljónir á mánuði í tvö ár.
Áætlanir stjórnvalda gera nú ráð fyrir að leiðin muni kosta 34 milljarða króna.
Sama dag og framlenging hlutabótaleiðarinnar var samþykkt á Alþingi í lok maí var samþykkt frumvarp um að veita fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi, eða 75 prósent, styrki til að eyða ráðningarsamböndum við starfsfólk sitt. Tilkynnt var um að frumvarpið yrði lagt fram í lok apríl, sem leiddi til þess að mörg fyrirtæki sem höfðu verið með fólk á hlutabótaleiðinni sögðu því upp fyrir þau mánaðamót.
Úrræðið gerir ráð fyrir því að ríkissjóður greiði fyrirtækjum sem uppfylla sett skilyrði alls 27 milljarða króna í styrki til að hjálpa þeim að segja upp fólki. Yfirlýst markmið er að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin.