Tekjur RÚV hafa fallið umtalsvert á síðustu mánuðum vegna samdráttar í auglýsingatekjum. Á árinu 2020 eru rauntekjur þegar 150 milljónum krónum undir áætluðum tekjum vegna þessa og búist er við 200 til 300 milljón króna tekjusamdrætti á næsta starfsári. Tekist verður á við þessa stöðu með hagræðingaraðgerðum sem fela meðal annars í sér fækkun á starfsfólki og með því að bjóða starfsfólki yfir 65 ára aldri að lækka við sig starfshlutfall um helming.
Þetta kemur fram í bréfi sem Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sendi á starfsfólk klukkan 14:00 í dag.
Þar segir Stefán að fyrirsjáanlegt sé að staðan muni vara um lengri tíma. Hún hafi verið til umræðu á síðustu stjórnarfundum fyrirtækisins auk þess sem stjórnendur einstakra sviða og eininga hafi farið yfir mögulegar hagræðingaraðgerðir til bæði lengri og skemmri tíma. „Á fundi stjórnar RÚV ohf. í vikunni kynnti ég þessa vinnu í grófum dráttum, stöðu hennar og næstu skref. Við nálgumst þetta verkefni eins og áður með yfirveguðum hætti og í vinnu okkar með stjórnendum einstakra sviða og eininga hefur verið safnað saman fjölmörgum aðgerðum og leiðum til hagræðingar. Okkar vinna gengur núna út á að tímasetja þær, kostnaðarmeta og hrinda þeim í kjölfarið í framkvæmd.“
Ráðist í hagræðingaraðgerðir
Stefán rekur svo aðgerðirnar, sem eru af ýmsum toga. Smærri aðgerðir snúa meðal annars að aukinni samvinnu milli sviða og eininga, breytingum á verkefnum og starfshlutfalli/störfum í einhverjum tilvikum, yfirferð yfir aukagreiðslur sem einnig tengist vinnu við jöfnun launa milli kynja og jafnlaunavottun, tilfærslu og breytingu á verkefnum og utanumhaldi. „Þessar smærri aðgerðir eru í gangi á öllum sviðum og verða nánar kynntar hlutaðeigandi þegar það er tímabært í hverju og einu tilviki.“
Tvær stærri aðgerðir eru sérstaklega tilgreindar í póstinum. Annars vegar ætlar RÚV að nýta starfsmannaveltu til þess að fækka starfsfólki. Í því felst, að sögn Stefáns, að notast verður við þær heimildir sem RÚV hefur til breytinga á einstaka störfum og tilfærslum innanhúss þar sem nauðsynlegt er að manna lausar stöður eða sinna verkefnum, þegar störf hjá RÚV losna eða fækkar í hópi starfsmanna af öðrum ástæðum.
2,2 milljarða tekjur úr samkeppnisrekstri
RÚV hagnaðist um 6,6 milljónir króna á árinu 2019. Tekjur fyrirtækisins voru 6,9 milljarðar króna. Þar af komu 4,7 milljarðar króna úr ríkissjóði í formi þjónustutekjna af útvarpsgjaldi, en 2,2 milljarðar króna voru tekjur úr samkeppnisrekstri, sem er að uppistöðu sala auglýsinga og kostaðs efnis.
Rekstrarhagnaður RÚV fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var 290 milljónir króna í fyrra.
Afkoma RÚV á árunum 2013 til 2018 var jákvæð um 1,5 milljarða króna, en sú afkoma skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili var hún neikvæð um 61 milljón króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. orðið ógjaldfært.