Kvika banki hefur sent tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun, um fyrirhugaða sameiningu bankans við tryggingafélagið TM, er hafnað.
Í tilkynningunni segir orðrétt: „Í morgun voru birtar fréttir um mögulegan samruna Kviku og TM. Engar viðræður eru í gangi og ekki eru fyrirhugaðar viðræður um samruna félaganna.“
Í frétt Fréttablaðsins segir að æðstu stjórnendur félaganna tveggja, sem bæði eru skráð á hlutabréfamarkað, hafi á undanförnum vikum rætt mögulega sameiningu þeirra. Enn hefði ekki náðst samkomulag um undirritun viljayfirlýsingar um að hefja formlegar samningaviðræður um sameiningu.
Við lokun markaða í gær var TM metið á um 26 milljarða króna og Kvika banki á um 19 milljarða króna.
Efnahagsreikningur TM tvöfaldaðist síðla árs í fyrra þegar félagið keypti fjármögnunarfyrirtækið Lykil. Heildareignir þess fóru þá yfir 80 milljarða króna og gerði TM að stærsta íslenska tryggingafyrirtækinu. Við þau kaup varð stór hluti af starfsemi félagsins fjármögnun, þ.e. útlán og leigusamningar.
Kvika er fjórði stærsti banki landsins. Áætlaðar heildareignir hans í lok mars síðastliðins voru 117,1 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall hans 24,2 prósent.