Á fundi ríkisstjórnar Íslands í morgun var fjallað um, að frumkvæði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, lausn tveggja dómara við Hæstarétt Íslands frá embættum sínum. Um er að ræða Gretu Baldursdóttur og Þorgeir Örlygsson, sem er sitjandi forseti Hæstaréttar Íslands.
Þetta þýðir að á innan við ári munu fimm dómarar við Hæstarétt hafa hætt störfum, og fjórir nýir verða skipaðir í þeirra stað.
í ágúst í fyrra var greint frá því að Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson hefðu óskað eftir lausn frá embætti og myndu hætta frá og með 1. október 2019. Samhliða yrði dómurum fækkað úr átta í sjö, líkt og staðið hafði til frá því að nýju millidómstígi, Landsrétti, var komið á. Eitt embætti dómara við Hæstarétt var í kjölfarið auglýst og í desember í fyrra var Ingveldur Einarsdóttir skipuð í það af Áslaugu Örnu.
Reynslumestu dómararnir horfnir á braut
Markús hafði verið dómari við Hæstarétt Íslands frá árinu 1994, eða í 25 ár. Hann var varaforseti Hæstaréttar 2002 og 2003 og forseti Hæstaréttar 2004 og 2005 og frá 01. janúar 2012 til loka árs 2016. Áður en að Markús var skipaður dómari var hann meðal annars prófessor í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands 1988 -1994. Enginn dómara við Hæstarétt komst á þeim tíma sem hann tilkynnti um starfslok sín nálægt því að hafa setið þar jafn lengi og Markús. Sá sem komst næst því er Ólafur Börkur Þorvaldsson sem var skipaður í embætti árið 2003.
Kúvending á samsetningu réttarins á innan við ári
Í janúar síðastliðnum óskaði svo Helgi I. Jónsson eftir lausn frá embætti hæstaréttardómara. Hann var þá varaforseti réttarins og hafði setið í honum frá 2012. Í apríl var Sigurður Tómas Magnússon, þá dómari við Landsrétt, skipaður í embættið.
Nú bætast þau Greta og Þorgeir, sem bæði voru skipuð dómarar við Hæstarétt í september 2011, við hóp þeirra hæstaréttardómara sem hafa hætt störfum á skömmum tíma.
Þeir þrír dómarar sem munu sitja áfram í embætti, og voru hluti af Hæstarétti síðasta sumar líka, eru áðurnefndur Ólafur Börkur (skipaður 2003) , Benedikt Bogason varaforseti Hæstaréttar (skipaður 2012) og Karl Axelsson (skipaður 2015).
Þegar búið verður að skipa í stað þeirra Gretu og Þorgeirs munu því fjórir af sjö dómurum Hæstaréttar Íslands hafa verið skipaðir frá því í desember 2019, og þrír þeirra á árinu 2020. Allir fjórir munu hafa verið skipaðir af Áslaugu Örnu.